Innlent

Áhugi fyrir göngu- og hjólabrú yfir Fossvog

Þrjú hundruð metra brú tengir Reykjavík og Kópavog ef tillaga arkitekta í Alark verður að veruleika. Brúin á að vera lágreist til að trufla ekki útsýni.Mynd/Alark
Þrjú hundruð metra brú tengir Reykjavík og Kópavog ef tillaga arkitekta í Alark verður að veruleika. Brúin á að vera lágreist til að trufla ekki útsýni.Mynd/Alark
Útfærsla á rúmlega þrjú hundruð metra langri göngu- og hjólabrú yfir Fossvoginn var kynnt í skipulagsnefnd Kópavogs fyrr í vikunni.

Samkvæmt útfærslunni, sem arkitektarnir Jakob Líndal og Kristján Ásgeirsson í Alark kynntu, verður brúin þrjú hundruð og fimm metra löng, lágreist, og mun ná frá Kársnesi yfir að flugbrautarendanum Reykjavíkurmegin.

Í miðjunni yrði sextán metra löng snúningsbrú til að hleypa bátum og öðrum fleyjum í gegn.

„Um nokkurt skeið hefur verið rætt hér í Kópavogi um að leggja brú þarna yfir og höfum við heyrt að borgaryfirvöldum lítist vel á það,“ segir Birgir H. Sigurðsson, skipulagstjóri Kópavogsbæjar.

Jakob Líndal bendir meðal annars á mikla landfyllingu Kópavogsmegin innan við hina áætluðu brú. Þar sé þegar búið að samþykkja nýtt bryggjuhverfi.

Birgir skipulagsstjóri segir hugmynd arkitektanna í áframhaldandi skipulagsvinnu á svæðinu.

„Ekki er hægt að segja til um það á þessari stundu hvort og þá hvenær eitthvað verði af hugmyndum í þessa veru – en vonandi skýrist það þegar lengra líður á haustið og vinnu sveitarfélaganna, Kópavogs og Reykjavíkur, miðar áfram,“ segir skipulagstjórinn. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×