Skoðun

Sóknarkirkjan á samleið með uppalendum

Bjarni Karlsson skrifar
Þegar við flettum blaði dagsins blasir við að mannlífið er komið í haustgírinn. Það er einhver fersk tilfinning sem fylgir haustinu, tilfinning fyrir því að nýjar áskoranir séu þess virði að taka þær og að komandi vetur geti gefið margt gott af sér ef rétt er á spöðunum haldið.

Það er flókið að lifa því það þarf að halda jafnvægi á svo mörgum sviðum í einu; heilsa, fjármál, nám, vinna, sambönd, fjölskyldulíf, áhugamál…

Og þegar börnin okkar vaxa úr grasi er það von okkar að þau verði enn leiknari en við og færari um að vera farsælt fólk í flóknum heimi. Þess vegna viljum við að þau eignist fjölbreytta reynslu í uppvextinum. Við höldum að þeim að iðka skólanámið, hvetjum þau til að stunda íþróttir og helst tónlist og viljum að þau séu félagslega virk.

Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar er félagslegur vettvangur þar sem börn og unglingar fá tækifæri til að þroska persónuleika sinn. Þar fer fram þjálfun í að velja og hafna fyrir sjálfan sig, greina aðstæður og koma auga á lausnir.

Helgisagnirnar í Biblíunni útskýra með sígildum hætti hvernig fólk getur orðið farsælt, bænin er traust aðferð til að eiga innra líf og vera sjálfum sér samkvæmur og félagsskapur undir merkjum Jesú frá Nasaret er æfing í því að tilheyra hópi þar sem ekki er stillt upp í goggunarraðir heldur hugað að öðrum og meira skapandi samskiptaleiðum.

Því hvet ég alla uppalendur til þess að huga að því hvað sóknarkirkjan hefur að bjóða börnum og unglingum og styðja þau í því að finna þar eitthvað sem vekur áhuga þeirra. Kirkjan er og vill vera traustur samherji í uppeldi barna og unglinga.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×