Til stendur að rannsaka öryggisgæslufyrirtækið G4S, en það sá um gæslu á Ólympíuleikunum í London. Gríðarlegt tap varð af því verkefni, en fyrirtækið gat aðeins útvegað 7 þúsund verði af þeim 10.400 sem samið hafði verið um. Guardian greinir frá þessu.
Reiknað er með að sex mánaða uppgjör sýni allt að 50 milljóna punda tap á rekstri fyrirtækisins, en það er í einkaeigu. Framkvæmdastjóri þess, Nick Buckles, hefur viðurkennt að frammistaða þess á leikunum hafi verið til skammar, en samningurinn hljóðaði upp á 284 milljónir punda.
G4S sér einnig um öryggisgæslu á Ólympíuleikum fatlaðra, sem hefjast á morgun. Fyrirtækið mun hins vegar ekki bjóða í gæsluna á HM í knattspyrnu sem fer fram í Brasilíu árið 2014.- kóp
