Skoðun

Ríkið tekur til sín stóran hluta lífeyrissjóðsgreiðslna

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir skrifar
Hið opinbera klípur, oft duglega, af greiðslum til lífeyrisþega úr tveimur áttum. Annars vegar í gegnum tekjuskatt og/eða fjármagnstekjuskatt og hins vegar með tekjutengingum, þar sem skattskyldar tekjur fyrir skatt skerða lífeyrisgreiðslur, sem fólk fær úr almannatryggingakerfinu. Veigamest er tekjutengingin á sérstaka uppbót til framfærslu, en hún skerðist krónu á móti krónu (100% skerðing) við skattskyldar tekjur fyrir skatt. Lítum á dæmi:

Örorkulífeyrisþeginn í dæminu fær útborgað á mánuði 18.798 kr. úr lífeyrissjóði en sömu tekjur (30.000 kr. fyrir skatt) skerða örorkulífeyri hans (eftir skatt) frá TR um 10.702 kr. á mánuði. Samanlögð er þá skerðing vegna tekna úr lífeyrissjóði og tekjuskattur af sömu greiðslum 21.904 kr. á mánuði. Því gefa 30.000 kr. á mánuði (fyrir skatt) frá lífeyrissjóði aðeins 8.096 kr. hærri ráðstöfunartekjur. Meginhluta greiðslnanna tekur ríkið til sín í formi tekjuskatts og tekjutenginga.



30.000 kr. lífeyrissjóðsgreiðslur á mánuði fyrir skatt:

8.096 kr. hærri ráðstöfunartekjur

21.904 kr. eða 73% af 30.000 kr. fær ríkið í gegnum tekjuskatt og tekjutengingar

Lögbundin aðild að lífeyrissjóðum, ekki frjálst val.

Öryrkjar með réttindi í lífeyrissjóði hafa greitt iðgjöld oft og tíðum í mörg ár fyrir örorkumat. Samkvæmt lögum er skylda að greiða iðgjald í lífeyrissjóð frá 16 til 70 ára. Aðild að lífeyrissjóði kemur fram í kjarasamningi og því er um lögbundinn skyldusparnað að ræða, en ekki frjálst val. Mörgum örorkulífeyrisþegum sem leitað hafa til ÖBÍ og hafa greitt iðgjald í lífeyrissjóð fyrir orkutap misbýður að fá aðeins lítinn hluta lífeyrissjóðsgreiðslnanna í vasann þar sem meginhluti þeirra gengur til ríkissjóðs.

Ríkið tekur til sín 73% af lágum lífeyrissjóðsgreiðslum.

Dæmið hér að ofan er um örorkulífeyrisþega með lágar aðrar tekjur, eða 30.000 kr. fyrir skatt. Af lágum lífeyrissjóðsgreiðslum tekur ríkissjóður 73% í formi tekjuskatts og tekjutenginga. Dæmið sýnir enn fremur hversu miklar tekjuskerðingar eru í almannatryggingakerfinu og á það sérstaklega við um sérstaka uppbót til framfærslu, sem skerðist krónu á móti krónu. Svipuð útkoma yrði ef 30.000 lífeyrissjóðstekjum yrði skipt út fyrir 30.000 kr. atvinnutekjur á mánuði.

Það gleymist gjarnan þegar rætt er um útgjöld til almannatrygginga hversu stóran hluta ríkið tekur til baka með skerðingum, tekjutengingum og skatti, en skerðingar voru auknar að nýju í júlí 2009.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×