Skoðun

Ben Stiller og Össur

Þórey Vilhjálmsdóttir skrifar
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ritaði grein hér í Fréttablaðið á laugardag með þeirri afbragðsfyrirsögn „Ben Stiller og Þórey“ þar sem hann tekur undir greinaskrif mín um ástæður velgengni kvikmyndageirans á Íslandi. Við erum greinilega sammála um mikilvægi athafnafrelsis og vaxtar í einkageiranum en væntanlega á það þá einnig við um ferðaþjónustu – ört vaxandi grein sem fjöldi fólks hefur lífsviðurværi sitt af.

Össuri finnst þó vanta þakkar-listann í grein minni sem lýsir líklega vel kynslóðabilinu í stjórnmálunum. Ný kynslóð í stjórnmálunum er ekki eins upptekin af því hvaðan gott kemur en að sjálfsögðu á fólk skilið að fá viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Því er mér ljúft og skylt að færa ráðherranum mínar bestu þakkir fyrir hans baráttu og eldmóð í þessu máli og eins öllum þeim sem átt hafa aðkomu að lagasetningunni um endurgreiðslu á hluta framleiðslukostnaðar á kvikmyndum sem teknar eru á Íslandi.

Megintilgangur greinar minnar var að benda á af hverju kvikmyndageirinn blómstrar hér sem aldrei fyrr – einmitt vegna lagasetningarinnar. Með henni varð kvikmyndageirinn á Íslandi samkeppnishæfur á alþjóðlegum vettvangi.

Það sem ég saknaði úr grein ráðherrans var að hvergi minntist hann á samanburð minn við ferðaþjónustu almennt og hvernig við megum ekki skerða samkeppnishæfni þeirrar greinar á alþjóðavettvangi með skattahækkunum. En eins og fram hefur komið hefur ríkisstjórnin tilkynnt um skattahækkanir á gistinætur úr sjö prósentum í 25,5% sem bent hefur verið á að muni koma verulega illa niður á ferðaþjónustu og allsendis óvíst að skattahækkanirnar skili sér í hærri tekjum ríkisins.

Ég treysti því að ráðherrann muni því „ólmast eins og kviðsítt naut í mýri“ gegn fyrirhuguðum skattahækkunum á ferðaþjónustu á sama hátt og hann beitti sér fyrir því að efla alþjóðlega samkeppnishæfni kvikmyndageirans. Með því móti getum við notið þess meðbyrs sem Ben Stiller og hinar kvikmyndastjörnurnar hafa veitt okkur til þess að efla og byggja upp vaxandi greinar ferðaþjónustu og kvikmyndagerðar.




Skoðun

Sjá meira


×