Skoðun

Fræðsla fyrir alla

Oft höfum við ásatrúarfólk fengið skömm í hattinn hjá nýjum félögum um leið og þeir ganga í félagið. Þeir setjast gjarna fyrir framan okkur með alvöruþunga í svipnum og spyrja hvernig í ósköpunum standi á því að þeir hafi aldrei verið fræddir um heiðinn sið og félagið, eða boðið að vera með.

Nýliðarnir eru stundum alvarlega sárir út í okkur og kenna forsvarsmönnum félagsins um að þeir hafi „misst af" mörgum árum eða áratugum í félagsskap annars heiðins fólks. Þeir átelja okkur fyrir að hafa ekki auglýst starfsemina og skýrt út fyrir almenningi um hvað heiðinn siður og félagsstarfið snýst.

Við verðum jafnan svolítið kindarleg og vitum upp á okkur skömmina því sjálf höfum við flest dottið óvart inn í félagið og drepséð eftir því að hafa ekki fundið okkur þar fyrr á lífsleiðinni.

En svona er þetta bara, það er einfaldlega meðvituð stefna Ásatrúarfélagsins að boða ekki trú eða troða lífsskoðun okkar upp á aðra. Það er ekki einungis talinn óþarfi, heldur beinlínis dónaskapur að mati flestra heiðinna manna.

Það gilda svo allt aðrar reglur um að fræða þá sem sækjast eftir því sjálfir og við treystum því að fólk leiti og finni.

Undanfarin ár hefur fjöldi unglinga leitað til félagsins af eigin hvötum og fengið að gangast undir svokallaða siðfestuathöfn sem er hliðstæða við kristna fermingu. Upphaflega var hún aðeins hugsuð fyrir fullorðið fólk sem vildi sanna fyrir sjálfu sér og öðrum að það hefði heiðinn sið að leiðarljósi í lífinu, en síðastliðin ár hafa unglingar sótt æ meira í þessa athöfn og fengið að taka siðfestu að undangenginni fræðslu og með samþykki forráðamanna.

Í fyrstu var fólk á öllum aldri saman í þessari fræðslu, en nú hefur henni verið skipt í tvo hópa sem hefja starf á haustin. Í öðrum hópnum er fullorðið fólk sem vill taka siðfestu, en í hinum unglingar og oft aðstandendur þeirra með þeim.

Unglingafræðslan miðast að því að kynna krökkunum goð og vættir, sagnaarf þjóðarinnar, lífsspeki Hávamála og Völuspár og ekki hvað síst ábyrgð hins heiðna lífsstíls og fullorðinsáranna. Fræðslan fer að mestu fram í heimspekilegum umræðum með léttu ívafi og lagt mikið upp úr því að allir tjái sig og viðri skoðanir sínar á þessum málefnum og er því oft glatt á hjalla.

Fræðsla um heiðinn sið hefst á haustdögum og nú er tækifærið fyrir þá sem hafa áhuga að hafa samband. Að sjálfsögðu eru allir jafn velkomnir að sækja til okkar félagsskap og fræðslu. Okkar er ánægjan, því eins og segir í Hávamálum; maður er manns gaman.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×