Innlent

Ein stærsta lögregluaðgerð fyrr og síðar

Héraðsdómi Reykjaness í gærkvöldi.
Héraðsdómi Reykjaness í gærkvöldi.
Fjórir meðlimir og áhangendur vélhjólasamtakanna Outlaws voru leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness í gærkvöldi þar sem farið var fram á gæsluvarðhald yfir þeim. Þeir voru handteknir í risavaxinni lögregluaðgerð í fyrrakvöld sem teygði sig yfir nokkur sveitarfélög.

Farið var fram á einnar viku gæsluvarðhald yfir þremur körlum og einni konu. Þeirra á meðal er Víðir Þorgeirsson, leiðtogi samtakanna, sem kallaður er Tarfur. Hann hlaut fimm ára fangelsisdóm árið 2001 fyrir að smygla hingað rúmlega 5.000 e-töflum. Dómari tók sér frest til dagsins í dag í máli Víðis en féllst á kröfuna í málum hinna.

Málið hófst með rassíu á miðvikudagskvöld. Þá réðst gríðarlega fjölmennt lögreglulið til inngöngu á sjö stöðum; í félagsheimili Outlaws við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði, í heimahús í Mosfellsbæ, á Eyrarbakka og í Reykjanesbæ, á heimili Víðis í Vogum og á tveimur stöðum til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu.

Sextán voru handteknir, langflestir í félagsheimilinu þar sem fundur samtakanna stóð yfir. Þrír voru látnir lausir fljótlega en þrettán, ellefu karlar og tvær konur, gistu fangageymslur og sættu stífum yfirheyrslum í gær.

Flest er fólkið meðlimir í Outlaws eða stuðningsklúbbum samtakanna og flest hefur það komið við sögu lögreglu áður. Nokkrir hinna handteknu voru á meðal þeirra sem voru handteknir í annarri rassíu fyrir tveimur vikum sem beindist gegn Outlaws. Þá voru sjö handteknir og einn úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Við leit lögreglu á þessum sjö stöðum var lagt hald á nokkra tugi gramma af sterkum fíkniefnum, stera, bruggtæki, landa og gambra, þýfi og margs konar eggvopn.

Að undanskilinni aðgerðinni í svonefndu Papeyjarmáli sem kom upp á Djúpavogi vorið 2009, sem um hundrað manns tóku þátt í, og ýmsum fjöldastjórnunaraðgerðum, svo sem við mótmæli, er aðgerðin í fyrrakvöld sú umfangsmesta sem íslensk lögregla hefur nokkru sinni ráðist í.

Rétt tæplega áttatíu lögreglumenn tóku þátt í henni, meðal annars vopnaðir liðsmenn sérsveitar Ríkislögreglustjóra. Þá voru starfsmenn tollgæslunnar með í för með sérþjálfaða leitarhunda og auk þess sprengjuleitarhundur Ríkislögreglustjóra.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×