Skoðun

Kjör og nám kennara

Björgvin G. Sigurðsson skrifar
Fyrir fjórum árum samþykkti Alþingi með samstöðu þvert á flokka tímamótabreytingar á kennaranámi, þar með talið lengd og umfangi náms leikskólakennara. Ég greiddi atkvæði með þeim lagabreytingum og er sannfærður um að þær eru og verða til góðs. Verði meðal annars til þess að bæta kjör kennara og hækka laun þessarar mikilvægu stéttar sem er og hefur lengi verið launuð langt undir því sem sanngjarnt getur talist.

Hins vegar virðist sem lenging námsins úr þremur árum í fimm hafi m.a. orðið til þess að fækka þeim sem fara í námið. Auðvitað veldur fleira en lengd námsins, svo sem lág laun. Mikið er undir þar sem stefnt er að því að tveir þriðjungar starfsmanna leikskólanna verði til þess menntaðir í stað eins þriðjungs nú.

Því tók ég það upp í þinginu um daginn hvort ætti að áfangaskipta náminu. Nemendur fengju þannig réttindin í áföngum en til að ljúka því yrði áfram um fimm ára nám að ræða. Eða eins og ein amma og leikskólakennari sagði við mig í tölvupósti í gær: „Ég tek undir það að það megi þrepaskipta náminu og að fólk fái réttindi í þrepum. Eftir stendur að börnin okkar eiga skilið góða kennara og því þarf það starf að vera eftirsóknarvert og það verður helst gert með góðum launum."

Þetta taldi ég rétt að árétta til að ekki liggi eftir sá misskilningur að við séum að ræða um að stíga til baka og stytta námið aftur í þrjú ár. Slík þrepaskipting náms yrði þannig að nemandinn fengi tiltekin réttindi t.d. að loknum þremur árum. Það held ég að yrði mjög til góðs. Bæði til að draga fleiri að þessu mikilvæga og góða starfi og einnig hinu að fyrr fengjust fleiri fagmenntaðir starfsmenn inn í leikskólana. Það er þetta sem verið er að fara yfir en ekki skref til fyrra fyrirkomulags.

Umræðan er mikilvæg og þarf að verða til þess að markmiðin um sanngjarnari laun og fleiri menntaða leikskólakennara náist sem allra fyrst.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×