Yannis Stournaras, fjármálaráðherra Grikklands, fullyrti á þingi í gær að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefðu samþykkt að Grikkland fengi tveggja ára viðbótarfrest til að koma ríkisfjármálum sínum í lag.
Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, og Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka ESB, sögðu þó ekkert hæft í þessu. Schäuble kallaði þessa yfirlýsingu gríska fjármálaráðherrans innihaldslausar vangaveltur, en Draghi sagði hana vera ekkert annað en orðróm, sem hann gæti ekki staðfest.
Stournaras fullyrti engu að síður að samkomulag hefði tekist við þriggja manna sendinefnd frá AGS, ESB og Seðlabanka ESB um 13,5 milljarða evra niðurskurð á fjárlögum Grikklands, sem grísku stjórnarflokkarnir hafa vikum saman unnið hörðum höndum að.
Þessu fylgir, sagði hann, að frestur til að ná ríkisskuldunum niður í það hámark, sem ESB gerir kröfu um, verði lengdir frá árslokum 2014 til ársloka 2016: „Ef við hefðum ekki fengið þá framlengingu hefðum við ekki aðeins þurft að grípa til aðgerða upp á 13,5 milljarða evra í dag, heldur 18,5 milljarða."
Samkomulag við þriggja manna nefndina er skilyrði þess að Grikkland fái næstu umsömdu greiðslur úr stöðugleikasjóði ESB, en þær greiðslur þurfa að berast fyrir miðjan nóvember, að öðrum kosti verður gríska ríkið gjaldþrota.- gb
Þór Þorl.
Valur