Skoðun

Viljinn er skýr

Þjóðaratkvæðagreiðslan sem fram fór á laugardaginn markar þáttaskil. Niðurstaðan var skýr: Tillaga stjórnlagaráðs verður lögð til grundvallar nýrrar stjórnarskráar. Mikilvægt er að Alþingi nái samstöðu um að ljúka málinu fyrir kosningar en sú samstaða byggist á því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar. Engin samstaða getur náðst um að leggja tillögurnar til hliðar eða kalla þær fúsk.

Ég vil benda á að í stjórnlagaráði hefur þegar farið fram málamiðlun á milli ólíkra sjónarmiða sem njóta stuðnings meðal þjóðarinnar. Hér eru tvö dæmi.

Í landinu er rík krafa um að gera landið að einu kjördæmi. Að sama skapi vill fólk viðhalda kjördæmaskipun sem hvetur þingmenn til að verja og sinna sérstökum hagsmunum. Bæði sjónarmið hafa sína kosti og galla. Niðurstaða stjórnlagaráðs er málamiðlun milli þessara sjónarmiða til að ná sátt og samstöðu um nauðsynlegar breytingar.

Tillögur stjórnlagaráðs um forsetaembættið eru einnig tilraun til að sætta ólík sjónarmið. Í stjórnlagaráði var fólk sem vildi aukin völd forsetans, en einnig fólk sem vildi takmarka þau í samræmi við hlutverk þjóðhöfðingja í nágrannalöndum okkar. Niðurstaðan er valdalítið en mikilvægt forsetaembætti.

Tillögur stjórnlagaráðs fela ekki í sér jafn miklar breytingar og ætla mætti af gagnrýnisröddum. Þingræði er og verður áfram megineinkenni íslenskrar stjórnskipunar og erlendar og margreyndar fyrirmyndir eru að flestum þeim breytingum sem stjórnlagaráð gerði tillögu um.

Róttækustu tillögurnar er að mínu viti þrjár: Í fyrsta lagi er vægi atkvæða jafnað og opnað á persónukjör. Í öðru lagi er kveðið á um þjóðareign á auðlindum sem ekki eru í einkaeign. Og í þriðja lagi þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu kjósenda.

Allar þessar tillögur njóta mikils stuðnings meðal landsmanna og Alþingi verður að fara mjög varlega í að breyta þeim. Þeir þingmenn sem reyna að útvatna tillögur stjórnlagaráðs um þjóðareign á auðlindum eða jafnt vægi atkvæða munu lenda í erfiðleikum með að útskýra það fyrir kjósendum. Vilji þeirra er jú skýr!




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×