Skoðun

Inn á miðjuna

Magnús Orri Schram skrifar
Ég tel að Samfylkingin eigi að leggja meiri áherslu á alþjóðaviðskipti, einfaldara skattkerfi, eflingu samkeppni, og frjálsræði í viðskiptum, og þannig færast nær kjósendum á miðju íslenskra stjórnmála. Við erum flokkurinn sem hefur raunsæjar lausnir fyrir nútímafólk. Við erum flokkur hins nýja atvinnulífs sem krefst opinna markaða, afnáms einokunar eða hindrana í viðskiptum. Atvinnulífs sem opnar leiðir fyrir frumkvöðla t.d. í gegnum skattkerfi eða innan landbúnaðar eða sjávarútvegs. Atvinnulífs sem byggir á hugviti og menntun einstaklinga og skilur mikilvægi umhverfisverndar og náttúru fyrir verðmætasköpun.

Með auknum áherslum í þessa veru verður Samfylkingin vænlegur valkostur kjósenda á miðju íslenskra stjórnmála sem er umhugað um öflugt atvinnulíf til jafns við sterkt velferðarkerfi. Til þessa fólks eigum við að ná með stefnu okkar í landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum, Evrópumálum, skattastefnu okkar, mennta- og atvinnustefnu.

Þekkingarmiðað atvinnulífFlokkurinn hefur sýnt að honum er vel treystandi fyrir ríkisfjármálunum, að hann hafni einangrunarstefnu, og að hann sé eini flokkurinn með stefnu í myntmálum þjóðarinnar. Um leið eigum við að leggja áherslu á þekkingarmiðað atvinnulíf, jafnvægi milli umhverfisverndar og virkjana, innleiðingu skattalegra hvata gagnvart atvinnulífinu og á eflingu samkeppnishæfni landsins. Samfylking er alþjóðasinnaður miðjuflokkur þar sem við teljum að jafnvæginu á milli ríkisforsjár og einkaframtaks sé hægt að ná í gegnum áherslu á velferðarkerfi og verðmætasköpun.

Valkostur miðjunnarVerði Samfylkingin í forsæti næstu ríkisstjórnar er mikilvægt að halda áfram að gæta að þeim verst stöddu í okkar samfélagi. Forsendur verðmætasköpunar liggja í velferðinni. Þá á flokkurinn að fylgja eftir nauðsynlegu aðhaldi í ríkisútgjöldum, gæta að hófsemi í skattlagningu og réttlátri skiptingu arðs af auðlindum. Stefna ber að endurskoðun landbúnaðarkerfisins, halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið og freista þess að gefa þjóðinni valkost í myntmálum. Þannig á Samfylkingin að birtast sem valkostur þeirra sem hafna einangrun en vilja byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og losa heimilin undan oki verðtryggingar og hárra vaxta. Samfylkingin ber því ríka ábyrgð sem valkostur kjósenda á miðju íslenskra stjórnmála.




Skoðun

Sjá meira


×