Skoðun

Þegar ég dey

Davíð Ingi Magnússon skrifar
Þegar ég kveð þennan heim hætta ákveðin ensím og taugaboð að myndast í heilanum. Hugsanir, hreyfingar og tilfinningar mínar verða að engu. Líkami minn verður að öllum líkindum grafinn, enda hugnast mér líkbruni illa. Áður en að greftrinum kemur fer líkami minn í ákveðið ferli hjá næstu heilbrigðisstofnun við dánarstað minn.

Á bak við þetta ferli stendur vel menntað fólk á borð við lækna og hjúkrunarfræðinga. Það er gott að hugsa til þess að hæft fólk muni annast jarðneskar leifar mínar eftir minn dag. Það eru þó blikur á lofti hvað varðar hæfi þessara heilbrigðisstarfsmanna. Ástæðan er ekki sú að heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi séu vanhæfir til þess að sinna störfum sínum en vegna niðurskurðar til Háskóla Íslands, gæti svo farið.

Niðurskurðurinn bitnar með beinum hætti á verðandi heilbrigðisstarfsmönnum og nú þegar hefur Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, sökum fjárskorts, þurft að fella niður hluta af námskeiði um meðhöndlun líka.

Hvernig eiga þessir starfsmenn að geta sinnt skyldum sínum ef þekkingin er ekki til staðar? Mun líkami okkar fá þá virðingu að vera meðhöndlaður af hæfu starfsfólki eftir okkar dag?

Ég beini þessum einföldu spurningum til ráðamanna í íslensku samfélagi og óska eftir því að þeir íhugi vandlega í hvað fjármagnið fer þegar fjárlög til Háskóla Íslands verða tekin til skoðunar á næstu vikum.

Ég tel að svarið sé einfalt. Fyrsta flokks háskólar, fyrsta flokks samfélag. Annars flokks háskólar, annars flokks samfélag.




Skoðun

Sjá meira


×