Skoðun

Grundvallarbreytingar samþykktar á kvótakerfinu

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni voru samþykktar grundvallarbreytingar á núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi. Rúmir tveir þriðju þeirra sem afstöðu tóku samþykktu tillögu stjórnlagaráðs sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Kvótalöggjöfin hefur verið eitt allra stærsta deilumálið í íslenskum stjórnmálum undanfarin 20 ár. Ítrekað hafa landsmenn látið í ljós mikla óánægju með ákveðna þætti löggjafarinnar í skoðanakönnunum og alþingiskosningum. Það fer ekki á milli mála að hver sá sem samþykkti tillögu Stjórnlagaráðs hefur kynnt sér breytingarnar og verið þeim samþykkur. Það fer líka ekki á milli mála að hver sá sem vildi áfram núverandi kvótakerfi að mestu óbreytt hefur greitt atkvæði gegn tillögunni. Alls greiddu ríflega 73.000 manns breytingunum atkvæði sitt. Það eru 67% þeirra sem afstöðu tóku. Þetta er nánast sami stuðningur og kom fram í skoðanakönnun MMR í maí 2011. Þá vildu 65% innkalla kvótann og úthluta honum að nýju með breyttum reglum.

Breytingarnar í 34. grein í tillögu stjórnlagaráðs fjalla um náttúruauðlindir og réttindi tengd þeim. Róttæku breytingarnar eru þær að auðlindirnar sem ekki eru í einkaeigu eru lýstar þjóðareign. Réttindin til þess að hagnýta þær, svo sem fiskveiðikvóta, mun ríkið veita á jafnræðisgrundvelli, gegn fullu gjaldi til hóflegs tíma, og þau má aldrei veðsetja. Þarna er skýrt hvernig öll umdeildustu atriðin í kvótakerfinu eiga að vera til lykta leidd.

Í dag er það svo að handhafar kvótans hafa komist upp með að veðsetja kvótann og þannig draga óhemjumikið fé út úr greininni í eigin vasa. Tvöföld verðlagning á kvóta hefur verið látin viðgangast. Ríkið hefur innheimt lágt gjald árlega fyrir afnotin en síðan hafa samtök útvegsmanna, LÍÚ, rekið á skrifstofu sinni sérstakan kvótaeftirmarkað og þar hefur verðið á kvótanum verið margfalt hærra. Í könnun MMR frá maí 2011 vildi 71% svarenda að ríkið fengi markaðsverðið, sem eðlilegt er. Núverandi kvótaúthlutun brýtur allar reglur um jafnræði og samkeppni sem gilda um atvinnurekstur í þjóðfélaginu.

Enn á ný hefur almenningur í landinu sagt stjórnmálamönnunum skýrt hver vilji hans er. Munu þeir loksins fylgja þeim vilja?




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×