Skoðun

Hagvexti hamlað með niðurskurði til háskóla

Svana Helen Björnsdóttir skrifar
Allir eru sammála um mikilvægi öflugrar menntunar fyrir verðmætasköpun og lífskjör. Því skýtur það skökku við að stjórnvöld skuli ítrekað fara þá leið, þvert á ráðleggingar sérfræðinga, að skera niður fjárframlög til háskóla.

Í nýlegri könnun SI meðal 400 fyrirtækja eru sterkar vísbendingar um að atvinnulífið muni árlega skorta um 1.000 raunvísinda-, tækni- og verkfræðimenntaða starfsmenn næstu árin. Niðurskurður til háskóla, sérstaklega til tæknimenntunar á háskólastigi, dregur þannig verulega úr getu atvinnulífsins til að skapa hagvöxt og störf.

Tilfærsla fjármögnunar sem gengur þvert gegn þörfum atvinnulífsins, þ.e. frá tækninámi og frá Háskólanum í Reykjavík, sem menntar tvo af hverjum þremur sem ljúka tæknimenntun á háskólastigi, til annarra námsbrauta og annarra háskóla, eykur á vandann.

Þegar ráðist var í niðurskurð í kjölfar kreppunnar var engin breyting gerð á háskólakerfinu eða stefna mörkuð um hvaða þættir væru mikilvægastir í háskólastarfinu. Afleiðingin var niðurskurður án samhengis og markmiða sem leitt hefur til alvarlegrar mismununar í fjárframlögum til háskólanna.

Í ljósi þess hversu mikilvægur Háskólinn í Reykjavík er fyrir atvinnulífið, sér í lagi á sviði tæknimenntunar þar sem þörfin er brýnust, er með ólíkindum að einna mest hafi hlutfallslega verið skorið niður í framlögum til HR. Niðurskurðurinn til HR er rúmlega 17% á sama tíma og niðurskurður til HÍ er ekki nema tæpt prósent og framlag á hvern ársnema hefur minnkað um 12% hjá HR en um 6% hjá HÍ og var samt lægra fyrir. Þessi munur er gríðarlega mikill og langt umfram það sem getur talist eðlilegt.

Mesti niðurskurður til háskóla sem útskrifar flesta tæknimenntaða samræmist illa stefnu um að hér eigi að byggja upp öflugan tækni- og hugverkaiðnað. Skortur á tæknimenntuðu starfsfólki hamlar vexti atvinnulífs á Íslandi, verðmætasköpun og hagvexti. Til að snúa þeirri þróun við þarf að vinna markvisst að því að efla tæknimenntun í stað þess að veikja hana.

Samtök iðnaðarins skora á stjórnvöld og Alþingi að snúa við ósanngjarnri og óskynsamlegri þróun og fjármagna HR svo skólinn geti haldið áfram að styðja við eflingu atvinnulífs með menntun, rannsóknum og nýsköpun.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×