Handbolti

Ólafur: Hefði skoðað að spila frítt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur færi einstakt tækifæri til þess að sanna sig með einu besta liði Þýskalands.
Ólafur færi einstakt tækifæri til þess að sanna sig með einu besta liði Þýskalands. Fréttablaðið/Valli
Eins dauði er annars brauð og það sannaðist í gær þegar Ólafur Gústafsson samdi við þýska stórliðið Flensburg. Ólafur fær óvænt tækifæri til þess að sanna sig hjá liðinu út þessa leiktíð og var hann keyptur frá FH.

Arnór Atlason er með slitna hásin og þýski landsliðsmaðurinn Lars Kaufmann verður frá líklega næstu sex vikur vegna meiðsla og því þurfti Flensburg sárlega að bæta við sig rétthentri skyttu.

Það eru fáir leikmenn á lausu á þessum tíma og því leituðu forráðamenn Flensburg til Íslands og gengu hratt frá kaupum á Ólafi, sem hefur ekki áður spilað sem atvinnumaður.

„Ef ég stend mig, sem ég stefni á að gera, þá er aldrei að vita nema mér verði boðið meira. Ég verð ekki ríkur af þessum samningi enda byrjunarsamningur. Ég lít líka á þetta fyrst og fremst sem frábært tækifæri fyrir mig til þess að sanna mig," segir Ólafur en hefði hann spilað frítt til þess að fá þetta tækifæri? „Ég hefði alveg tekið það í mál. Þetta er tækifæri sem gefst bara einu sinni í lífinu."

Flensburg hafði samband á mánudag og spurði hvort Ólafur hefði áhuga á að koma. „Eftir það gerðust hlutirnir mjög hratt. Félögin náðu saman á þriðjudag og ég skrifaði svo undir í dag [í gær]. Ég er svo farinn út til þess að vera úti. Ég varð að bregðast hratt við fyrirspurninni og það var auðvelt."

Ólafur segist hafa hafnað tilboðum frá þýskum liðum í neðri hlutanum í vetur þar sem hann vildi ekki yfirgefa FH á nýju tímabili. Þessu tækifæri var aftur á móti ekki hægt að sleppa. „Ég hef ekkert rætt við Arnór en er búinn að tala við Vranjes þjálfara. Ég hef fylgst vel með þýska boltanum og Flensburg. Ég verð að aðlagast hratt. Þetta er atvinnumennskan, leikir á þriggja daga fresti og mikið álag. Ég verð að fara vel með mig."

Ólafur verður ekki orðinn löglegur fyrr en eftir viku og næsta fimmtudag á Flensburg leik gegn Neuhausen. Þar fær Ólafur væntanlega strax að spila enda þörf á hans kröftum strax.

Skyttan stóra og stæðilega hefur alltaf stefnt á atvinnumennsku og fær nú að uppfylla drauminn. „Fyrst ég fór ekki út í sumar þá var stefnan að komast út næsta sumar. Það voru B-deildarlið að skoða mig þá og ég sé ekki eftir að hafa hafnað þeim núna. Nú verð ég að grípa tækifærið og standa mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×