Skoðun

Haftastefna Samfylkingar og Vinstri grænna

Vinstrimenn hafa notað bankahrunið sem átyllu til að herða tök stjórnvalda á almennum borgurum í bráðum fjögur ár. Þeir hafa meðal annars fest gjaldeyrishöftin í sessi sem loka Íslendinga inni í eignafangelsi. Með höftunum er erlendri fjárfestingu haldið frá landinu og Íslendingum gert ókleift að fjárfesta erlendis. Meðan svona er ástatt geta engin alþjóðleg fyrirtæki vaxið hér á landi.

Útvaldir hópar hagnast gríðarlega í skjóli haftanna og Seðlabankinn veitir undanþágur frá höftunum án þess að tilgreina í hverju þær eru fólgnar. Almenningur hefur því engin tök á að fylgjast með að jafnræðis sé gætt. Leynd og pukur eru einkunnarorð ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms.

Einn óhugnanlegasti fylgifiskur haftanna er persónunjósnir Seðlabankans, en bankinn hefur til að mynda aðgang að öllum kreditkortafærslum landsmanna. Eftirlitsþjóðfélagið er farið að vega að grundvallarréttindum borgaranna, eins og persónufrelsi. Þá er í hæsta máta óeðlilegt að stjórnendur Seðlabankans eigi að fara með peningamálastefnuna næstu misserin og árin. Þar sitja sömu hagfræðingarnir og stýrðu peningamálastefnunni í þrot árið 2001 og tóku þá upp nýja stefnu sem þeir klúðruðu gjörsamlega með eftirminnilegum hætti árið 2008. Nú ætlar vinstri ríkisstjórnin að gefa Má Guðmundssyni og öðrum flokksbræðrum hans á Kalkofnsveginum þriðja sénsinn. Þetta er svona álíka gáfulegt og ef að stjórnvöld fengju Sigurjón Árnason, Hreiðar Má og Bjarna Ármannsson til að leggja drög að nýju bankakerfi.

Afnám gjaldeyrishaftanna og upptaka ábyrgrar peningamálastefnu eiga að vera meginviðfangsefni stjórnmálanna nú um stundir en ekki óþörf gæluverkefni á borð við happdrættisstofu, stjórnlagaráð og kynjaða hagstjórn. Afnema þarf haftastefnu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×