Skoðun

Með fulla trú á sjálfum sér

Pawel Bartoszek skrifar
Fréttastofa RÚV færði okkur fréttir af því í vikunni að fólk treysti fréttastofu RÚV betur en öðrum fréttastofum. Þar var vitnað í könnun rannsóknarfyrirtækisins MMR á trausti almennings til helstu fjölmiðla.

Það er spurning: Er það traustvekjandi ef fjölmiðill telur það fréttnæmt að aðrir telji hann traustsins verðan?

Ef til vill mætti líta fram hjá hóflegu magni sjálfshóls á þessum vinnustað sem öðrum. Flestir vilja, jú, monta sig aðeins og niðurstaða úr skoðanakönnun sem þessari er kannski réttmætt fréttaefni, allavega í samanburði við annað sem ratar í fréttir hérlendis. Ég meina, fyrsta frétt sama kvöld fjallaði til dæmis um það að lögreglan hefði leyst upp ólöglegan pókerklúbb. Kannski er því ekki svo galið að fjalla um traust til fjölmiðla. En þetta er samt auðvitað bara markaðsrannsókn. Hún mælir ekki hvað er satt, heldur hvað fólk heldur að sé satt. Þótt „almenningur" telji tryggingarfélag traust, því það er „gamalt og rótgróið", þýðir það ekki í sjálfu sér að reksturinn standi traustum fótum. Til gamans: Sú fréttastöð sem nýtur mests trausts í Bandaríkjunum heitir „Fox News".

Þurfum að spyrja

En ef við teljum fréttir af trausti fólks til frétta vera fréttir í sjálfu sér þá þurfum við að spyrja okkur eftirfarandi spurningar:

Myndi fréttastofa RÚV segja frá því að samkvæmt könnun MMR væri traust til fréttastofu RÚV í sögulegu lágmarki? Ef við getum ekki svarað þessu hiklaust með jái þá liggur vandamálið fyrir.

Í fréttum miðvikudagsins var til dæmis fullyrt að traust til fréttastofu RÚV væri að aukast, enda hafði það hækkað úr 71,5% í 75,3%. Miðað við það úrtak sem tiltekið var í könnun MMR virðist mér raunar ekki vera hægt að fullyrða með 95% vissu að traustið hafi í raun hækkað. Þetta er í daglegu tali orðað þannig að munurinn sé „innan skekkjumarka". En að minnsta kosti einu sinni frá því að mælingar MMR hófust hefur orðið marktæk lækkun á fjölda þeirra sem bera mikið eða frekar mikið traust til RÚV. Í maí 2009 mældist traustið 69,9% og hafði lækkað úr 82,1% í desember 2008. Hver var fyrirsögnin á RÚV þá? Jú: „Fréttastofa RÚV nýtur mests trausts." Í fréttinni sagði: „Um 70% aðspurðra segjast bera mikið traust til fréttastofu RÚV, og er það nærri tvöfalt fleiri en segjast bera mikið traust til fréttastofu Stöðvar 2." Loks var reyndar tæpt á því að „nokkuð færri sögðust bera mikið traust til fjölmiðlanna" en í fyrri könnun. Traust til fjölmiðla almennt. Ekkert minnst á það í þetta skiptið að traust til RÚV hefði minnkað umtalsvert.

Yndislega fyrirsjáanlegt

Sjáum fyrir okkur fréttastofu sem birtir fyrirsagnir á borð við:

„Sjálfstæðisflokkurinn mælist hæstur" eða „Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst" en þegir þá sjaldan sem hvorugt á við. Slík fréttastofa væri talin hlutdræg þegar kæmi að umfjöllun um Sjálfstæðisflokkinn. Á sama hátt er fréttastofa RÚV hlutdræg þegar kemur að umfjöllun um fréttastofu RÚV.

Nú er fréttastofa RÚV kannski ekki öðrum verri. Það ágæta blað sem ég fæ að skrifa í og það fyrirtæki sem það heyrir undir flytja líka fréttir af eigin velgengni. Sé leitað að orðunum „lestur Fréttablaðsins" á netinu eru fyrstu fréttir af Vísi.is með fyrirsögnum á borð við „Mikið forskot Fréttablaðsins" og „Fréttablaðið með yfirburðastöðu". Síðan kemur reyndar ein frétt af mbl.is: „Lestur á Fréttablaðinu minnkar." Allt þetta er nú svo yndislega fyrirsjáanlegt að það er næstum því krúttlegt. Eigin velgengni er fréttnæm, hrakfarir annarra einnig en ekki annað. En þótt fréttastofa RÚV sé ekki verri, er það nóg? Ætti hún ekki að vera betri? Er hún ekki svo traust?

Ég myndi treysta betur fréttastofu sem léti vera að birta jákvæðar fréttir um sjálfa sig, þótt hún gæti það. Ég skoðaði raunar nokkrar erlendar fréttir af trausti til fjölmiðla. Í þeim tilfellum sem ríkisfjölmiðlar fjölluðu um eigið ágæti var það oft gert undir liðnum „fréttatilkynningar". Enda eru þetta auðvitað fréttatilkynningar.

Fréttatilkynningar sem vill svo til að samdar eru af fréttastofum. Og því hættir mönnum til að líta á þær sem fréttir.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×