Handbolti

HK-fjölskyldan stendur þétt við hlið Bjarka

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þorgeir faðmar Bjarka að sér eftir flutning ljóðsins.
Þorgeir faðmar Bjarka að sér eftir flutning ljóðsins. Mynd/Valli
Það var frábær mæting á leik HK og FH í N1-deildinni á fimmtudag. Það var ekki bara handboltinn sem trekkti að því allur aðgangseyrir rann til Bjarka Más Sigvaldasonar sem er 25 ára gamall leikmaður knattspyrnuliðs HK. Hann glímir við erfið veikindi um þessar mundir.

Í hálfleik á leiknum steig Þorgeir Lárus Árnason, sem er grjótharður HK-ingur, út á gólfið og kallaði Bjarka Má til sín. Fyrir framan rúmlega 1.000 manns flutti Þorgeir fallegt ljóð sem hann hafði samið sjálfur. Flutningurinn var frábær, rétt eins og ljóðið, og komust flestir áhorfendur við á þessari fallegu stund.

Þeir félagar föðmuðust síðan áður en Þorgeir leysti Bjarka út með ljóðinu innrömmuðu. Áhorfendur, allir sem einn, stóðu upp og klöppuðu fyrir þessu frábæra framtaki Þorgeirs.

HK-ingar standa þétt við bakið á sínum manni en þann 27. desember fer fram styrktarleikur í Kórnum fyrir Bjarka. Þar mætir meistaraflokkur HK liði gamalla HK-leikmanna. Í því liði verða kempur eins og Gunnleifur Gunnleifsson og Rúrik Gíslason.

HK-ingar standa einnig fyrir almennri söfnun til handa Bjarka og fjölskyldu á þessum erfiðu tímum og má leggja henni lið með því að leggja inn á eftirfarandi reikningsnúmer 536-14-400171, kt. 630981-0269.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×