Skoðun

Staðreyndir um löggæslu á Íslandi

Ríkið heldur úti starfsemi lögreglunnar segir í 1. gr. lögreglulaga, til þess að tryggja öryggi borgaranna, segir í 2. gr. Það þarf fjárveitingar og lagaleg úrræði til þess að tryggja þessa lagaskyldu.

Ein meginniðurstaða 22. júlí nefndarinnar um harmleikinn í Ósló og Útey á síðasta ári er sú að norsk stjórnvöld hafi brugðist í því hlutverki sínu að vernda borgarana. Til að skerpa á þeirri fullyrðingu segir síðan: „Skjótari viðbrögð lögreglu voru raunverulegur möguleiki." Önnur meginniðurstaða nefndarinnar er sú að viðhorf til löggæslu verði að breytast. Þetta er afar athyglisvert og rímar við tilfinningu lögreglumanna. Stjórnmálamenn og almenningur verða að horfast í augu við þá staðreynd að velferðarkerfið er einskis virði ef öryggi borgaranna er ekki tryggt. Að tryggja öryggi samfélagsins er frumskylda ríkisvaldsins. Þegar það er tryggt er rétt að fara að huga að öðrum þáttum velferðarkerfisins.

Á Norðurlöndum sem og annars staðar hefur tilfellum fjölgað þar sem einstaklingar undirbúa sig mánuðum saman með það að markmiði að drepa samborgara sína. Dæmi frá Finnlandi, Danmörku og Noregi og Þýskalandi sýna okkur það. Þetta og skipulögð glæpasamtök eru stærstu áskoranir lögreglumanna. Mikið vantar upp á að íslenskir lögreglumenn geti tekist á við þessar áskoranir.

Lögreglumönnum hefur fækkað verulega. Verkefnin eru á sama tíma flóknari og hættulegri. Akstur lögreglubifreiða og þar með sýnileiki hefur dregist saman um þriðjung á öllu landinu. Víða á landsbyggðinni hefur lögreglustöðvum verið lokað og mörg lögreglulið hafa þurft að leggja af sólarhringsvaktir og banna almennt eftirlit á lögreglubifreiðum til að ná endum saman. Einungis er heimilt að aka í útköll.

Hrollvekjandi staðreynd

Nám við Lögregluskólann hér á landi er mun styttra en í öðrum norrænum ríkjum, auk þess sem hann er metinn til færri framhaldsskólaeininga en öryggisvarðanámskeið hjá Mími. Þetta er ísköld hrollvekjandi staðreynd. Síðan ég fór í Lögregluskólann 1992 hefur bóklega námið ekkert lengst, starfsnámið hefur styst og lítil þróun orðið í námsefninu. Endurmenntun lögreglumanna hér hefur nánast þurrkast út miðað við fyrri tíma. Handtökuþjálfun, taktík og sjálfsvarnarþjálfun er lúxus sem almennir lögreglumenn lesa bara um í erlendum fagtímaritum.

Lagaheimildir til rannsókna hér standa heimildum lögreglu í nágrannalöndum okkar langt að baki. Nýlegt frumvarp innanríkisráðherra er því miður engin lausn á þeim vanda. Um það eru fagaðilar sammála. Það eru engin skynsamleg rök fyrir því að íslenska lögreglan hafi ekki sömu rannsóknarúrræði og starfsbræður þeirra annars staðar á Norðurlöndum og víðar. Innanríkisráðherra greip nýverið til þess ráðs að takmarka rannsóknarúrræði lögreglu með breytingum á sakamálalögum. Enda var prófkjör fram undan.

Afleiðing stöðugs niðurskurðar og skilningsleysis er of fámenn, vanbúin, of lítið menntuð og lítið þjálfuð löggæsla sem getur engan veginn haldið úti markverðu sýnilegu eftirliti né hefur næg rannsóknarúrræði til að takast á við það verkefni að tryggja öryggi borgaranna.

Ekki hlustað

Innanríkisráðherra er duglegur að minna lögreglumenn á að hér hafi nú orðið hrun og því séu engir peningar til. Hversu lengi á sú afsökun að duga? Það hefur margsýnt sig að Alþingi hefur undanfarin ár ráðstafað verulegum fjármunum í ýmis pólitísk hugðarefni. Grænkun fyrirtækja fær t.d. 500 milljónir skv. fjárlögum sem liggja nú til afgreiðslu. Forgangsröðunin er einfaldlega röng. Ábyrgðin er hjá stjórnmálamönnunum. Það var niðurskurður hjá lögreglunni í Ósló sem varð til þess að flugmenn lögregluþyrlunnar voru sendir í sumarfrí án afleysinga. Lögreglustjórinn í Ósló gerði dómsmálaráðherranum grein fyrir þessu skömmu fyrir 22. júlí 2011. Það er alveg ljóst hvar ábyrgðin liggur á því að lögreglumenn komust ekki nógu snemma til Úteyjar.

Ítrekað undanfarin misseri hafa fagsamtök lögreglumanna krafist þess að mannafla og fjárveitingarþörf lögreglu og öryggisstig fyrir Ísland verði skilgreint. Á þetta hefur ekki verið hlustað. Yfirmenn lögreglu eru tregir til að játa þessa stöðu í fjölmiðlum enda alls ekki gott að segja löggæsluna veikburða. Fjárveitingar til lögreglu hafa að raunvirði dregist saman um milljarða. Frumvörp til lögreglulaga og annarra lagalegra úrræða litast af pólitískum áherslum en ekki raunverulegum þörfum lögreglunnar.

Stjórnmálamenn verða að axla ábyrgð á frumskyldum sínum. Að tryggja öryggi borgaranna. Það kom í ljós að norskir stjórnmálamenn brugðust skyldum sínum. Hvað ætla þeir íslensku að gera?




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×