Skoðun

Brýtur LÍN landslög?

Frá 1. nóvember 2007 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 43,7% frá upptöku laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, svokallaðra MiFID-reglna. Verður því að leiðrétta öll verðtryggð námslán sem seld hafa verið námsmönnum sem því nemur. Námsmenn hafa engar forsendur til að meta þá áhættu sem fylgir verðtryggðum námslánum og ætla Hægri grænir, flokkur fólksins, að berjast fyrir fullri leiðréttingu á þessum verðtryggðu afleiðusamningum, þ.e. öllum virkum útgefnum námslánum.

Ólögleg gengisviðmiðun

LÍN rukkar lánþega sem búsettir eru erlendis um launatengda árlega greiðslu. Miðar sjóðurinn við laun viðkomandi í erlendum gjaldmiðli og endurreiknar svo yfir í íslenskar krónur. Það er samkvæmt úrskurði Hæstaréttar ólögleg gengistrygging, því hvers konar tenging krónulána eða gengistrygging greiðslna af krónulánum er ólögleg. Í lögum er tekið fram að sá sem tekur lán á rétt á að vita upphæð greiðslna út lánatímabilið. Það er ómögulegt að gera ef greiðslur eru tengdar erlendum gjaldmiðlum. Samkvæmt lögum ætti LÍN að miða við meðallaun háskólamenntaðra manna á Íslandi, það eru opinberar tölur.

Þetta er ekki flókið, enda Hæstiréttur nýbúinn að dæma um þetta. Það leikur enginn vafi á því að aðferðin sem beitt er við útreikning afborgunar lána þeirra sem hafa laun í erlendum gjaldmiðli er ólögleg.

Lítil vernd

Athyglisvert er álit Umboðsmanns Alþingis nr. 5321/2008 þar sem kemur m.a. fram að LÍN hafi brotið lög í áraraðir með því að áætla alltaf 8 milljónir eða hærra á námsmenn sem skiluðu ekki upplýsingum um laun. Eftir álitið var ákvæðið afnumið úr lögum LÍN. Það kom fram í svari þáverandi framkvæmdastjóra LÍN að 8 milljóna kr. aðferðin var beinlínis höfð til að þvinga fram raunveruleg laun manna sem skiluðu ekki upplýsingum um laun sín. Eins og kemur fram í áliti Umboðsmanns Alþingis standast slíkar aðferðir ekki lög, hvað þá vegna námslána sem njóta sérstakrar verndar í lögum vegna þess að þau lán eru til þess gerð að fólk geti aflað sér tiltekinnar menntunar.

Lög eru ekki til skrauts

Á Íslandi endurspegla greiðsluáætlanir ekki raunveruleikann, sér í lagi verðbólguskotið fyrir og eftir hrun. Með sanni má segja að LÍN hafi raskað hegðun námsmanna með því að gera lítið úr langtímaáhættu vegna verðbólgu. Verðtryggð námslán eru í rauninni svo flóknar afleiðutengdar fjármálaafurðir að ómögulegt er fyrir námsmenn að meta þau á fullnægjandi hátt. Verðtrygging námslána er mjög líklega ólögleg og stangast á við grundvallarreglur evrópskra neytendalaga, sem banna misbeitingarákvæði sem raska jafnvægi samningsaðila neytanda í óhag. Það er löngu kominn tími til fyrir stjórnsýsluna og fjármálastofnanir að virða íslensk lög, þau eru ekki til skrauts. Vanþekking og afneitun á lögum leysir engan undan ábyrgð.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×