Innlent

„Stórkostlegur sigur fyrir tjáningarfrelsið“

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björk og Erla á góðri stundu.
Björk og Erla á góðri stundu.
Ég held að þetta hafi verið stórkostlegur sigur fyrir tjáningarfrelsið í landinu sem hefur verið í nauðvörn síðustu ár fyrir dómstólnum, segir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður blaðmannanna Bjarkar Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur. Mannréttindadómstóll Evrópu komst í morgun að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn þeim þegar þær voru dæmdar í héraði og í Hæstarétti til þess að bera ábyrgð á ummælum viðmælenda sinna.

Hérna á Íslandi var dómurinn í máli Bjarkar, svokallaður Vikudómur, fordæmisgefandi í nokkrum málum. „Hann setti fordæmi sem við töldum mjög varhugavert og gæti varla staðist gagnvart tjáningarfrelsisákvæðum Mannréttindasáttmálans enda er miðlun upplýsinga réttur sem er sérstaklega varinn í Mannréttindasáttmálanum og það má ekki gleyma því að hann hefur lagagildi hér á Íslandi eins og önnur lög," segir Gunnar Ingi. Núna sé orðið ljóst að það að gera blaðamenn ábyrga fyrir ummælum viðmælenda sé óréttmæt takmörkun á tjáningarfrelsi blaðamanna.

Gunnar Ingi segist ekki hafa skoðað hvort ástæða sé til að óska eftir að málin verði endurupptekin hér á landi. Þá segir Gunnar Ingi að fébæturnar sem blaðamönnunum hafi verið dæmdar séu ásættanlegar, þó þær hafi ekki verið í samræmi við kröfugerð. „Í raun og veru gerðist það í báðum þessum málum að blaðamönnum var gert að afhenda aleigu sína fyrir móðgandi ummæli. Við vorum náttúrlega að vonast til að fá bætur upp í það, þó íslenska ríkið hafi mótmælt því í sinni greinargerð að þær ættu að fá slíkar bætur. Og svo auðvitað einhvern miska sem þær hefðu hlotið og upp í rekstur málanna," segir Gunnar Ingi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×