Lífið

Rikka um fylgikvilla þess að vera þekkt á Íslandi

Mynd/Valli
Hún var vinnusöm sveitastelpa sem dreymdi um að verða læknir en að lokum varð matreiðslan ofan á. Í dag er hún farsæll sjónvarpskokkur, skrifar bækur, kennir landsmönnum að elda og kitlar bragðlauka þeirra með nýrri lúxus eftirréttalínu. Lífið hitti Rikku og ræddi galla þess að vera þekktur á Íslandi, móðurhlutverkið og framann.







Þú byrjaðir snemma að vinna, vissirðu alltaf hvert þú ætlaðir þér í framtíðinni?

Ég er að hluta til alin upp á eggjabúi á Kjalarnesi með hundum og hænum.

Hinn hluti uppeldisins fór fram í tískuverslun í miðbæ Reykjavíkur. Mamma rak Benetton-verslanirnar um árabil. Ég fór því mjög snemma að vinna í fyrirtækjum foreldra minn og fannst jafngaman að vinna í eggjunum sem og fatabransanum þó ólíkt sé. Þessir tveir ólíku pólar hafa mótað mig mikið því að í mér býr bæði sveitastelpa og borgar­barn.

Frá því að ég man eftir mér þá hefur matreiðslan alltaf togað sterkt í mig og innst inni kom aldrei neitt annað til greina. Ég var snemma farin að munda pottana og pönnuna. Ég man aldrei eftir mér öðruvísi en vinnandi, ef ég var ekki að tína egg eða brjóta saman peysur, var ég að elda fyrir starfsmenn eða að vinna í leikfangaverslun á Skólavörðustígnum. Ég hef líklega haft fjölmiðlaáhuga strax á þessum tíma, því við vinkona mín vorum alltaf að taka upp auglýsingar, útvarpsþætti og svoleiðis hluti. Annars langaði mig að verða læknir þegar ég var barn, matreiðslan varð ofan á. Kannski á ég læknisfræðina bara eftir!

Menntaður kokkur – ætlaðir þú þér alltaf að verða sjónvarpskokkur?

Upphaflega fór ég í námið með því hugarfari að mig langaði að skrifa bækur og kenna öðrum að elda. Ég ætlaði aldrei að vinna á veitingastað og hef ekki áhuga á því enn. Kannski sjónvarpsþættirnir séu eðlilegt framhald af þessu, en þar fæ ég tækifæri til að kenna fólki að elda rétti sem eru góðir en ekki of flóknir. Að vera með matreiðsluþátt á ekki að snúast um það hvað ég sé æðislega klár kokkur, heldur að aðrir geti haft gagn af þessu.

Það hafa ýmsar slúðursögur verið á kreiki um þig og þitt líf. Hvernig áhrif hefur þetta á þig og fjölskyldu þína? Ég hugsa að allir sem hafa náð því að verða þekktir á Íslandi geti sagt sögur af sjálfum sér, sem hafa náð einhverju flugi í saumaklúbbum og víðar. Sögur sem eiga auðvitað alltaf að vera sannar og samkvæmt „staðfestum heimildum", enda hafi sá sem segir söguna „sko heyrt hana úr tveimur áttum" eins og það geri vitleysuna eitthvað skárri. Sú lífseigasta núna held ég að sé um það að ég sé ólétt eftir alla aðra mögulega karlmenn en manninn minn, í það minnsta hafa vinir mínir sagt mér að þeir heyri það oftast þessa dagana. Ég hef líka átt að vera skilin við Stefán af ótal ástæðum og guð má vita hvað. Ég get ekki verið að stressa mig á því að fólk langi til að ræða svona hluti og herma upp á mig. Í sumum tilfellum eru sögurnar náttúrlega svo galnar að maður getur ekki gert neitt annað en hlegið að þeim, enda er ég eins og flestir í mínum bransa orðin vön þessu umtali. Sennilega er þetta aðallega leiðinlegt fyrir vini og ættingja sem lenda stundum í þeim aðstæðum að þurfa að hrekja þessar sögur, því fæstir hafa kjark til þess að spyrja mann beint út. Horfa bara á magann á mér í staðinn fyrir augun, með gervibros á vör! Þarf ég annars nokkuð að nefna að ég er ekki ólétt?

Að mínu mati skiptir það mestu máli í lífinu að vera sáttur við það sem maður stendur fyrir og gleyma því ekki að hafa svolítið gaman af þessu í leiðinni.

Hefur þig einhvern tímann langað að skipta um starfsvettvang?

Nei, ekki nema að mér bjóðist staða lýtalæknis á Landspítalanum. Ég hefði nú svolítið gaman af því að fá útrás fyrir listræna sköpun á því sviði.

Nú vinnur þú langan dag og oft á óhefðbundnum tímum, hvernig gengur að ala upp tvo drengi og halda heimili á sama tíma?

Örugglega bara svipað og hjá þeim sem vinna t.d. vaktavinnu. Í törnum sakna ég fjölskyldunnar og nýt þess enn betur að vera með þeim þegar ég á frí. Þetta gengur allt upp með góðri samvinnu okkar Stefáns.

Fá þeir svipað uppeldi og þú fékkst? Hverjar eru þínar helstu áherslur í uppeldinu?

Að reyna að vera samkvæmur sjálfum sér, hlusta á börnin þegar þau tala og vera ekki bara foreldri heldur líka vinur þeirra. Það er mikilvægt að setja sig í spor þeirra og leyfa karakter þeirra að koma fram. Strákarnir mínir eru ólíkir og ég reyni að fylgja innsæinu við uppeldið á þeim.

Myndirðu hvetja þá til að vinna í fjölmiðlum?

Já, ef þá langaði til þess.

Hvað gerir fjölskyldan saman á frídögum?

Það er mjög misjafnt, fer eftir veðri og vindum en í vetur höfum við verið dugleg að spila við strákana. Þeir eru á móttækilegum aldri og gaman að kenna þeim og fylgjast með þeim uppgötva eitthvað nýtt.

Nýja eftirréttalínan þín hefur vakið verðskuldaða athygli. Hvernig hófst samstarfið við Örvar Birgisson bakara, sem er með þér í því verkefni og er von á fleiri vörum?

Við Örvar höfum þekkst frá því við vorum krakkar. Foreldrar okkar eru vinahjón. Hann var í kokkalandsliðinu og er algjört séní í eftirréttum. Við unnum saman þegar ég var að byrja með bollakökurnar og upp úr því spratt þessi hugmynd. Við byrjuðum með fjórar tegundir fyrir jól og í vor er von á fleirum. Þetta hefur gengið mjög vel, fólk virðist kunna að meta hágæðavöru sem það þarf ekki að hafa neitt fyrir.

Hvað leggurðu áherslu á í þessari línu?

Ég svara oft fólki, þegar það spyr hvort þetta sé ekki fitandi, að við höfum fundið upp nýja tegund hitaeininga, svokallaðar hamingjuhitaeiningar og þær framkalli svo mikla gleði að það eigi ekki að hafa áhyggjur. Auðvitað er þetta ekki megrunarfæði enda ekki ætlað sem slíkt. Ég ráðlegg fólki að borða sitt lítið af hverju með góðu hugarfari, þar með talda eftirrétti. Þetta er gott í hófi.

Nú hefurðu augljóslega látið marga drauma þína rætast og verið framkvæmdaglöð mjög, hvað er næst á dagskrá?

Dagskráin hjá mér er eiginlega svo full þessa dagana að ég hef varla gefið mér tíma til að hugsa um hvað kemur næst. Ég veit að ég er samt alltaf með eitthvert markmið undir­liggjandi, en mér finnst ekki tímabært að segja frá því.

Vinnurðu út frá persónulegri markmiðasetningu eða hefur eitt gerst af öðru hjá þér?

Ég er alltaf með einhverja sýn á það sem mig langar til þess að framkvæma.

Ég notast mikið við hugarkort til þess að fá yfirsýn yfir þau markmið sem ég set mér og er mjög einbeitt við það að ná þeim. Þegar markmiðin eru komin á blað lauma ég þeim svo inn í hugleiðsluna mína og sé fyrir mér hvernig ég vil hafa hlutina. Þessi leið hefur reynst mér vel.

Hverjar eru þínar helstu fyrirmyndir bæði í atvinnulífinu sem og persónulega?

Það er enginn einn fastur. Ég tek mér alls konar fólk til fyrirmyndar. Ég kann til dæmis mjög vel að meta kurteist fólk sem virðir aðra og kemur vel fram. Ég forðast að setja fólk á stall og fæ innblástur frá samferðamönnum mínum, stundum frá einhverju sem fólk gerir, en líka stundum frá einstaklingnum sjálfum.

Hvernig tæklarðu stress og álag?

Ég hugleiði á hverjum einasta degi. Ég finn hvíldina í því og hef gert frá því ég var átján ára. Þá fór ég fyrst á jóganámskeið og jógaheimspekin hefur fylgt mér síðan. Hugleiðslan dýpkar innsæið og þroskar það, sem hefur hjálpað mér að taka ákvarðanir í lífinu.

Hvernig heldurðu þér í líkam­legu og andlegu formi?

Fyrir utan hugleiðsluna þá hreyfi ég mig reglulega. Ég man einu sinni eftir því að hafa farið í megrun. Ég var á síðasta árinu í menntaskóla og þá var í tísku að drekka soðið vatn með sítrónu, hlynsírópi og cayenne pipar. Algjör viðbjóður. Þetta tímabil stóð augljóslega ekki lengi, ég sprakk um hádegi sama dag og síðan þá hafa megrunarkúrar ekki heillað mig. Það sem virkar best fyrir mig er að ég hlusta á líkamann og reyni að forðast þann mat sem ég finn að fer ekki nógu vel í mig. Markmiðið mitt er ekki að vera með sixpakk heldur að líða vel í eigin skinni.

Hvernig lítur mataræði kokksins út? Leyfirðu þér miklar kræsingar?

Ég borða allt sem mig langar í og er hræðilegur sælkeri. Ég borða bara aldrei yfir mig. Ég hef frekar einfaldan matarsmekk og kann að meta góðan hamborgara, eplapæ með karamellusósu og sjeik með öllu saman. Það fer eigin­lega allt eftir því hvernig stemningin er og gæti ég svo sem talað endalaust um það sem mér finnst gott að borða.

Eitthvað að lokum?

Eitt gott spakmæli sem hvetur mig helst áfram þessa dagana er: Gættu þess að vanmeta þig ekki því veröldin er vís til þess að trúa






Fleiri fréttir

Sjá meira


×