Tónlist

Ný plata og þrennir tónleikar

Ásgeir Trausti er sallarólegur og nennir lítið að vera að stressa sig yfir hlutunum.
Ásgeir Trausti er sallarólegur og nennir lítið að vera að stressa sig yfir hlutunum. fréttablaðið/valli
Tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti gefur út sína fyrstu plötu, Dýrð í dauðaþögn, á þriðjudaginn. Tvö lög af henni, Leyndarmál og Sumargestir, hafa notið mikilla vinsælda í sumar og því er eftirvæntingin mikil.

Aðspurður segist Ásgeir Trausti hafa verið í eitt ár að semja lögin, þrír mánuðir fóru í upptökur og um tveir mánuðir í að vinna umslagið. Ferlið hefur því verið ansi langt en hann er mjög spenntur að sjá hvernig viðtökurnar verða.

Strákarnir í Hjálmum aðstoðuðu Ásgeir Trausta við upptökurnar, sem kemur ekki á óvart því söngvari sveitarinnar er bróðir hans Þorsteinn Einarsson. Þeir spiluðu einnig inn á plötuna og verða með honum á þrennum útgáfutónleikum.

Þeir fyrstu verða á Græna hattinum 14. september, þeir næstu á Hvammstanga hinn 16. og þeir þriðju og síðustu á Faktorý 18. september. Það er rosalega þægilegt að hafa svona reynslubolta í þessu með sér þegar maður er að koma svona nýr inn, segir Ásgeir Trausti um Hjálmana.

Lögin á plötunni eru annars úr öllum áttum. Lögin eru öll rosa ólík og textarnir eru allir mjög mismunandi, segir hann.

Faðir hans, Einar Georg Einarsson, samdi sjö texta og Júlíus Róbertsson þrjá en hann spilar einnig með Ásgeiri.

Það eru spennandi hlutir fram undan hjá tónlistarmanninum efnilega, sem er þó sallarólegur yfir öllu saman. Ég nenni ekki að vera að stressa mig, ég sé engan tilgang í því.

Þetta rennur bara áfram og ég fylgi með.

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.