Innlent

Íbúðir við gömlu höfnina í sjónmáli

Nýjar íbúðir kunna að setja mark sitt á gömlu höfnina í Reykjavík í náinni framtíð. Slippurinn verður áfram á sínum stað fyrst um sinn.
Nýjar íbúðir kunna að setja mark sitt á gömlu höfnina í Reykjavík í náinni framtíð. Slippurinn verður áfram á sínum stað fyrst um sinn. Mynd/Graem Massie Architects
Borgarráð samþykkti í gær kaup á lóðum á svokölluðu Mýrargötu- og slippsvæði af Faxaflóahöfnum fyrir 528 milljónir króna.

Með kaupunum á að skapast möguleiki fyrir 250 nýjar íbúðir á svæðinu milli Slipps og Sjóminjasafns sem reiknað er með að byggist fyrst upp. Síðan er möguleiki á allt að 250 íbúðum við Vesturbugt. Með öðrum stórum lóðum á svæðinu er rætt um allt að 1.000 íbúðir.

„Stefnan er að byggja þarna upp blandað svæði íbúða og atvinnustarfsemi sem nýtur nálægðar við höfnina. Um leið erum við að afmarka mjög skýrt að á svæðinu við Örfirisey og við Suðurbugt og Vesturbugt verði áfram sjávarútvegur og hafnarstarfsemi. Það land sem við ætlum að þróa undir íbúðabyggð fer yfir til borgarinnar með samningnum,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs.

Hjálmar Sveinsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna, segir ávinning þeirra vera að selja land sem þær geti ekki lengur notað.

„Faxaflóahafnir eru búnar að leggja í mikinn kostnað að gera þessar lóðir byggingarhæfar. Með því að selja þær fæst fé sem dekkar þann kostnað,“ segir Hjálmar, sem jafnframt er formaður stýrihóps um nýtt rammaskipulag fyrir gömlu höfnina frá Sjóminjasafninu að Hörpu. Hann bætir við að það sé tæpast hlutverk Faxaflóahafna að vera umsvifamiklar í þróun íbúðahverfa og eigandi íbúðalóða. „Hlutverk Faxaflóahafna er hafnarþjónusta og þjónusta við hafnsækna starfsemi.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×