Körfubolti

Drekarnir á toppinn í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pavel Ermolinskij í leik með KR á síðastliðnu tímabilin.
Pavel Ermolinskij í leik með KR á síðastliðnu tímabilin. Nordic Photos / Getty Images
Sundsvall Dragons skellti sér aftur á topp sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta eftir sigur á Borås Basket í toppslag umferðarinnar í kvöld, 87-80.

Bæði lið hafa unnið fjórtán leiki af 22 til þessa á tímabilinu en Sundsvall er á toppnum á betri árangri í innbyrðisviðureignum.

Sem fyrr voru Íslendingarnir áberandi í liði Sundsvall. Pavel Ermolinskij var stigahæstur með 20 stig auk þess sem hann tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Jakob Sigurðarson skoraði þrettán stig og Hlynur Bæringsson tólf auk þess að taka níu fráköst.

Sundsvall var skrefinu framar lengst af í leiknum en Borås þó aldrei langt undan. Drekarnir létu þó forystuna aldrei af hendi eftir fyrsta leikhluta.

Logi Gunnarsson skoraði fimmtán stig fyrir Solna sem vann nauman sigur á LF Basket, 81-80. Sigurkarfan kom þegar ellefu sekúndur voru til leiksloka en leikmenn LF fengu þó tækifæri til að tryggja sér sigurinn í lokasókninni en mistókst.

Þá var Íslendingaslagur þegar að Jämtland vann nauman sigur á 08 Stockholm, 84-83. Brynjar Þór Björnsson skoraði tólf stig fyrri Jämtland og Helgi Magnússon gerði slíkt hið sama fyrir 08 Stockholm.

08 er í sjöunda sæti deildarinnar, Solna í því áttunda og Jämtland í níunda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×