Enski boltinn

Áfrýjun Man. City vísað frá | Kompany fer í fjögurra leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincent Kompany.
Vincent Kompany. Mynd/Nordic Photos/Getty
Enska knattspyrnusambandið hefur vísað frá áfrýjun Manchester City vegna rauða spjaldsins sem Vincent Kompany fékk í bikartapinu á móti Manchester United um síðustu helgi. Kompany var rekinn útaf á tólftu mínútu fyrir tveggja fóta tæklingu á Nani.

Kompany er því á leiðinni í fjögurra leikja bann en fyrsti leikurinn verður á móti Liverpool í undanúrslitum enska deildarbikarsins annað kvöld. Kompany missir líka af deildarleikjum á móti

Wigan og Tottenham sem og seinni undanúrslitaleiknum á móti Liverpool.

Kompany fer í fjögurra leikja bann af því að hann fékk einnig rautt spjald í 3-1 sigri Manchester City á Wolves í ensku úrvalsdeildinni 29. október síðastliðinn.

Roberto Mancini, stjóri Manchester City, var yfirlýsingaglaður eftir bikarleikinn á móti Manchester United og talaði um að það væri 300 prósent öruggt að þetta hafi ekki verið rautt spjald.

Flestir knattspyrnuspekingar töluðu einnig um að þetta væri strangur dómur en samkvæmt bókinni þá eiga menn að fá rautt spjald fyrir tveggja fóta tæklingar. Kompany reyndi slíka tæklingu í þessu tilfelli þrátt fyrir að hann hafi ekki komið við Nani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×