Enski boltinn

Heiðar kominn með nýjan stjóra | Mark Hughes tekinn við QPR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Hughes.
Mark Hughes. Mynd/AFP
Heiðar Helguson er kominn með nýjan stjóra því Mark Hughes er búinn að gera tveggja og hálfs árs samning við Queens Park Rangers. Hughes mætti á Loftus Road í hádeginu og gekk frá samninginum. Hann tekur við starfi Neil Warnock sem var rekinn á sunnudaginn.

Mark Hughes hefur verið atvinnulaus síðan að hann sagði upp störfum hjá Fulham síðasta vor en nú líkt og þá verður hann með Íslending í sínu liði. Eiður Smári Guðjohnsen spilaði fyrir hann hjá Fulham seinni hluta síðasta tímabils.

„Það er frábær tilfinning að vera kominn aftur í fótboltann og fá tækifæri til að vera knattspyrnustjóri QPR. Ég gerir mér vel grein fyrir því að þetta er mikil áskorun fyrir mig bæði til styttri og lengri tíma en ég er mjög spenntur fyrir metnaðarfullri framtíðarsýn eigendanna," sagði Mark Hughes.

„Mark Hughes hefur sannað sig í ensku úrvalsdeildinni og kemur með mikla reynslu til félagsins. Hann hefur mikla ástríðu fyrir því að ná árangri sem stjóri og hefur þegar náð miklum árangri á sínum ferli. Væntingar hans eru í takt við væntingar stjórnarinnar. Við erum mjög ánægðir til að fá hann í stjórastólinn," sagði Tony Fernandes stjórnarformaður QPR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×