Enski boltinn

Fabregas: Enginn annar en Henry gæti skorað svona mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry skorar hér sigurmarkið á móti Leeds.
Thierry Henry skorar hér sigurmarkið á móti Leeds. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cesc Fabregas, fyrrum leikmaður Arsenal og núverandi leikmaður Barcelona, er einn af fjölmörgum stórstjörnum fótboltaheimsins sem hafa tjáð sig um endurkomu Thierry Henry í Arsenal-liðið í gær.

„Var að sjá markið hans Henry frá því í gærkvöldi. Enginn annar en Henry gæti skorað svona mark. Sérstakir leikmenn fyrir sérstakar stundir. Frábært," skrifaði Cesc Fabregas inn á twitter-síðuna.

Henry skoraði markið sitt á "klassískan" hátt, fékk sendingu frá Song, lagði boltann fyrir sig og sendi hann síðan í fjærhornið. Þetta var 227. mark hans fyrir Arsenal en enginn hefur skorað fleiri mörk fyrir félagið. Henry kom inn á sem varamaður á 68. mínútu á móti Leeds í gær og skoraði sigurmarkið tíu mínútum síðar.

Theirry Henry fór frá Arsenal til Barcelona árið 2007 og Fabregas fór sömu leið í haust. Fabregas hefur síðan látið hafa það eftir sér að hann gæti spilað aftur fyrir Arsenal í framtíðinni og endurkoma Henry í gær hefur eflaust ýtt undir þá drauma meðal stuðningsmanna Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×