Enski boltinn

Wenger um Henry í gær: Þessa sögu segir þú ungum krökkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry hljóp til Arsene Wenger eftir að hann skoraði.
Thierry Henry hljóp til Arsene Wenger eftir að hann skoraði. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að Thierry Henry hafi bætt enn við goðsögn sína hjá Arsenal með því að skora sigurmarkið á móti Leeds í enska bikarnum í gær. Henry kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og skoraði eina mark leiksins tíu mínútum síðar.

"Hann var þegar orðin goðsögn hérna en bætti við metorðaskrána sína með þessu marki. Þetta var pínulítið eins og draumur. Þessa sögu segir þú ungum krökkum þegar þú vilt tala um fótbolta. Því miður gerast svona ævintýri ekki oft í nútíma fótbolta en þetta gekk upp í kvöld," sagði Arsene Wenger.

Henry skoraði þarna sitt 227. mark fyrir Arsenal en hann gerði á dögum rúmlega sex vikna samning við félagið og það er möguleiki að framlengja hann upp í átta vikur.

"Thierry hefur upplifað allt og afrekað allt. Áhrif hans sáust strax þegar hann kom inn á völlinn og hann lítur vel út líkamlega. Ég sá það strax á æfingunum að hann var í góðu formi og tilbúinn að spila. Ég hefði aldrei sett hann inn á völlinn nema að því að hann væri klár í slaginn," sagði Wenger.

"Henry er sérstakur leikmaður og það er frábært fyrir félagið að fá hann aftur inn. Hann er maður sem hefur unnið allt en undirbýr sig samt hundrað prósent og kemur alltaf með ástríðu fyrir að skila sínu allra besta," sagði Wenger.

"Hann finnur samt fyrir pressu og var því mjög ánægður með að skora. Hann er stoltur náungi og vill ekki valda fólki vonbrigðum," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×