Enski boltinn

Ramsey fúll - fær ekkert að vita um næsta þjálfara Wales

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Ramsey.
Aaron Ramsey. Mynd/Nordic Photos/Getty
Aaron Ramsey, leikmaður Arsenal og fyrirliði velska landsliðsins, veit ekkert hvað er að gerast í landsliðsþjálfaramálum Wales en það er ekki enn búið að ráða mann í stað Gary Speed sem svipti sig lífi í nóvember.

Ramsey bjóst við því að fá að vera með ráðum þegar velska sambandið leitaði að nýjum landsliðsþjálfara en hann hefur ekkert heyrt í stjórnarmönnum sambandsins.

"Það eru vonbrigði að hafa ekkert heyrt neitt. Ég hef líka talað við nokkra aðra landsliðsmenn og þeir hafa ekkert fengið að vita heldur. Ég veit að í öðrum löndum fá landsliðsmenn að vera með í ráðum. Ég bjóst við því að fá að heyra um það hverjir kæmu til greina í stöðuna til þess að geta sagt mína skoðun á viðkomandi þjálfurum," sagði Aaron Ramsey sem tók við fyrirliðabandinu aðeins 20 ára gamall.

Aaron Ramsey sem er fæddur árið 1990 hefur nú skorað 5 mörk í 20 A-landsleikjum fyrir Wales en hann lék sinn fyrsta leik árið 2008 þegar hann var aðeins 17 ára gamall.

Ramsey segir mikilvægt að fá rétta manninn í starfið. "Við megum ekki taka skrefið til baka eða að leikmenn hætti að gefa kost á sér eins og var rauninn áður. Þessa stundina vilja allir vera með og núna eru allir að njóta sín með landsliðinu," sagði Ramsey en Gary Speed stýrði Wales til sigurs í þremur síðustu leikjum sínum sem þjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×