Körfubolti

Nýjasta og óvæntasta stjarna NBA-deildarinnar í beinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeremy Lin.
Jeremy Lin. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það þekktu ekki margir körfuboltaáhugamenn nafnið Jeremy Lin fyrir rúmri viku en á aðeins nokkrum dögum er þessi 23 ára bandaríski strákur ættaður frá Tævan orðin nýjasta og óvæntasta stjarna NBA-deildarinnar. Lin verður í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld þegar lið hans New York Knicks tekur á móti Los Angeles Lakers í Madison Square Garden en leikur liðanna hefst klukkan eitt eftir miðnætti.

New York Knicks vann aðeins 2 af 13 leikjum frá 12. janúar til 3. febrúar en hefur unnið þrjá leiki í röð eftir að Mike D'Antoni henti Jeremy Lin inn í byrjunarliðið sitt.

Það eru margir á því að Jeremy Lin hafi hreinlega bjargað starfi D'Antoni enda með 25,3 stig og 8,3 stoðsendingar að meðaltali í þessum þremur leikjum þegar liðið spilaði án stjörnuleikmannanna Carmelo Anthony og Amar'e Stoudemire.

Jeremy Lin var ekki með öruggan samning í síðasta mánuði og þessi strákur sem útskrifaðist með flotta einkunn úr Harvard fékk þá að gista á sófanum hjá bróður sínum á meðan að barðist fyrir samningi hjá New York. Sá samningur er nú í höfn og áhuginn á þessum hógværa strák hefur nú farið upp úr öllu valdi.

Það hefur ekki gengið allof vel hjá Kobe Bryant og félögum í Los Angeles Lakers í vetur en liðinu hefur hinsvegar spilað mjög vel í Madison Square Garden undanfarin ár. Knicks-liðið hefur alls tapað níu leikjum í röð á móti Lakers þar af fjórum í röð í MSG. Bryant hefur skorað 40 stig að meðaltali í þessum fjórum leikjum í Madison Square Garden.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×