Körfubolti

NBA í nótt: Naumur sigur Lakers á Boston

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Metta World Peace reynir að verjast Paul Peirce í leiknum í nótt.
Metta World Peace reynir að verjast Paul Peirce í leiknum í nótt. Mynd/AP
LA Lakers vann í nótt eins stigs sigur á Boston Celtics í NBA-deildinni, 87-88, í framlengdri viðureign. Alls fóru fjórir leikir fram í nótt.

Lakers hefur átt erfitt uppdráttar á útivelli en vann í nótt góðan sigur á sterku liði Boston sem hafði unnið níu af síðustu tíu leikjum sínum í deildinni - þar af fimm í röð.

Paul Pierce fékk opið skotfæri í lok framlengingarinnar en skot hans geigaði. Ray Allen reyndi að blaka frákastinu í körfuna en Pau Gasol, miðherji Lakers, náði að verja skotið.

Kobe Bryant skoraði 27 stig fyrir Lakers og Gasol var með 25 stig og fjórtán fráköst. Allen skoraði 22 stig og Kevin Garnett var með tólf stig og tólf fráköst.

Sacramento vann heldur óvæntan sigur á Oklahoma City, 106-101, en síðarnefnda liðið var með bestan árangur allra liða í deildinni fyrir leikinn. Chicago er nú með besta sigurhlutfallið.

Oklahoma City komst í átta stiga forystu í fjórða leikhluta en glutraði henni niður. Russell Westbrook skoraði 33 stig fyrir liðið og Kevin Durant 27. Stigahæstur hjá Sacramento var Tyreke Evans með 22 stig.

Golden State vann Denver, 109-101. Stephen Curry var sjóðheitur í leiknum og skoraði 36 stig en þetta var fimmta tap Denver í röð og er það lengsta taphrina liðsins í fimm ár.

Houston vann Phoenix, 96-89, þar sem mestu munaði um framlag varamannanna. Houston fékk 57 stig af bekknum en Phoenix aðeins þrettán.

Úrslit næturinnar:

Boston - LA Lakers 87-88

Denver - Golden State 101-109

Phoenix - Houston 89-96

Sacramento - Oklahoma City 106-101

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×