Lífið

Tólf hjúkrunarfræðinemar til Kenýa

Þær Steinunn, Lilja, Jóna, Sigrún, Elísabet, Auður, Dagrún, Auðna, Melkorka, Guðrún, Björk og Lóa ætla að dvelja í fátækrahverfunum við Nairobi í mánuð og vinna sjálfboðastarf.
Þær Steinunn, Lilja, Jóna, Sigrún, Elísabet, Auður, Dagrún, Auðna, Melkorka, Guðrún, Björk og Lóa ætla að dvelja í fátækrahverfunum við Nairobi í mánuð og vinna sjálfboðastarf.
„Við förum inn í fátækustu hverfin rétt fyrir utan höfuðborg Kenýa, Nairobi, og störfum með fólkinu þar," segir Steinunn Helga Sigurðardóttir hjúkrunarfræðinemi.

Tólf bekkjasystur af þriðja ári í hjúkrunarfræði í HÍ halda til Afríku til að vinna sjálfboðastarf. Stelpurnar halda út þann 12. maí næstkomandi og verða í tæpan mánuð. Þær fara utan á eigin vegum en vinna fyrir samtökin The Kenya Project og Advance Africa.

„Við ákváðum að skipta okkur í tvo hópa en verðum samt allar á svipuðu svæði og eigum eflaust eftir að hittast mikið," segir Steinunn. Hugmyndina fengu stelpurnar eftir að hópur hjúkrunarfræðinema fór út í sams konar verkefni í fyrra. „Þetta hljómaði svo spennandi hjá þeim og þær sögðust hafa lært svo mikið af þessu að við ákváðum að fara líka. Þar sem við erum að fara á sama stað og þær fóru á í fyrra vitum við líka nokkurn veginn út í hvað við erum að fara – höldum við," bætir hún við og hlær.

Meðal þess sem stelpurnar koma til með að gera verður að vinna á fæðingardeildum, sinna almennum hjúkrunarstörfum og heimsækja munaðarleysingjahæli og miðstöð þar sem HIV-smitaðar konur geta leitað sér leiðsagnar og stuðnings.

Stelpurnar sjá algjörlega um að fjármagna ferðina sjálfar. „Við leituðum að styrkjum en það gekk mjög illa svo við erum bara búnar að vera duglegar að selja klósettpappír. Auk þess héldum við bingó um daginn og það gekk rosalega vel, svo það munar um það," segir Steinunn og bætir við að ýmis fyrirtæki hafa veitt þeim stuðning með gjöfum fyrir þær að taka með sér út. „Smokkur.is gaf okkur til dæmis 1.200 smokka, Rekstrarvörur og Birgðastöð Landspítalans gáfu okkur alls kyns hjúkrunarvörur og A4 gaf okkur stílabækur og ritföng," segir hún.

Stelpurnar klára síðasta prófið rúmum sólarhring áður en þær leggja af stað til Kenýa og þurftu því að ganga frá flestu áður en þær lögðust í próflesturinn. „Allar sprautur, tryggingar og slíkt er komið á hreint og við nokkurn veginn tilbúnar að stíga um borð í flugvélina," segir Steinunn spennt.

Áhugasamir geta styrkt stúlkurnar með því leggja inn á reikning: 0331-13-301037. Kennitalan er 080386-2499.

tinnaros@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.