Lífið

Danir elska íslenska hönnun

Guðbjörg Heiða við búðarborðið í Dalíu.
Guðbjörg Heiða við búðarborðið í Dalíu.
Guðbjörg Heiða Sigurðardóttir rekur verslunina Dalíu í Kaupmannahöfn. Verslunin var opnuð í byrjun mars og selur meðal annars íslenska hönnun sem fellur vel í kramið hjá dönskum frændum okkar.

Guðbjörg Heiða hefur búið í Danmörku í rúm fimm ár og vann áður á skemmtistað og kaffihúsi þar sem hún lærði sitthvað um fyrirtækja-rekstur. Hún kveðst alltaf hafa haft gaman af smádóti og hönnun og að það hafi lengi verið draumur hennar að opna litla verslun.

„Mamma átti blómabúðina Dalíu í Fákafeninu og búðin er eiginlega tileinkuð henni. Ég sel litríkar gjafavörur og annað smálegt inn á heimilið sem og íslenska hönnun og eigin hönnun sem nefnist Made by Dalía. Danir eru mjög hrifnir af öllu sem telst heimagert og lífrænt þannig að íslenska hönnunin hefur slegið í gegn," útskýrir Guðbjörg Heiða sem naut aðstoðar vina og vandamanna við að koma búðinni af stað. „Þetta var alls ekki erfitt með hjálp fjölskyldu og vina, en án þeirra hefði þetta aldrei verið hægt. Þau unnu með mér myrkranna á milli og það tók okkur ekki nema tvær vikur að koma búðinni í stand og opna hana."

Verslunin stendur við Jægersborggade á Norðurbrú þar sem má einnig finna kaffihús, karamelluverksmiðju, litlar fataverslanir og bakarí. Guðbjörgu líkar lífið í Kaupmannahöfn vel og viðurkennir að hún verði æ danskari í sér með hverju árinu sem líður. „Því lengur sem maður býr hér því fastari verða ræturnar og maður verður mjög danskur í sér. En auðvitað er alltaf gott að komast heim til Íslands inn á milli." -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.