Sport

Þjálfari Muhammad Ali lést í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angelo Dundee og Muhammad Ali.
Angelo Dundee og Muhammad Ali. Mynd/Nordic Photos/Getty
Angelo Dundee, einn frægasti hnefaleikaþjálfari allra tíma og þjálfari Muhammad Ali í meira en tvo áratugi, lést í gær á elliheimili í Flórída en hann var orðinn níræður. Dundee fékk hjartaáfall.

Dundee átti alls þátt í fimmtán heimsmeistaratitlum í hnefaleikum á ferlinum en meðal hnefaleikastjarna sem hann þjálfaði með góðum árangri voru Sugar Ray Leonard, José Nápoles, George Foreman, Jimmy Ellis, Carmen Basilio, Luis Rodriguez og Willie Pastrano.

Angelo Dundee þjálfaði Muhammad Ali frá 1960 til 1981. Hann var gestur í sjötugsafmæli Ali í síðasta mánuði. Taktík Dundee var sögð hafa átt mikinn þátt í sigri Muhammad Ali á George Foreman í The Rumble in the Jungle bardaganum árið 1974.

Foreman vann síðan heimsmeistaratitil með Dundee sem þjálfara tuttugu árum síðar eða þegar hann var orðinn 45 ára gamall. Enginn hnefaleikakappi hefur verið eldri þegar Foreman tryggði sér heimsmeistaratitilinn í þungavigt árið 1994.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×