Handbolti

Alexander: Þetta verður mjög erfiður leikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Petersson í leik með íslenska landsliðinu á Ól í London.
Alexander Petersson í leik með íslenska landsliðinu á Ól í London. Mynd/AFP
Alexander Petersson verður í stóru hlutverki að venju þegar íslenska karlalandsliðið spilar sinn fyrsta leik undir stjórn Arons Kristjánssonar í kvöld. Strákarnir mæta þá Hvít-Rússum í Laugardalshöllinni í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2014.

„Þetta verður mjög erfitt. Við erum með nýjan þjálfara og höfum aðeins tvo daga til að samstilla liðið," segir Alexander Petersson.

„Það sem við vorum að reyna í vörninni í gær var ekki eins einfalt og alltaf. Aron vill líka breyta aðeins til og þá kemur misskilningur á milli varnarmanna. Í morgun (í gær) var líka varnaræfing og hún var aðeins betri en þetta verður mjög erfiður leikur," segir Alexander.

„Ég vildi ekki vera í sporum Arons því þetta er mjög erfitt og við þurfum að hjálpa honum mikið. Við þurfum að gefa allt okkar og ef að eitthvað virkar ekki þá þurfum við bara að gera það sem við gerðum áður," segir Alexander.

„Við sjáum til hvernig þetta gengur en ég hlakka til að spila á morgun. Þessi leikur kemur samt aðeins of snemma það hefði verið betra að spila hann á laugardaginn eða jafnvel föstudaginn því hefðum við meiri tíma til að vinna saman," segir Alexander.

Alexander fær enn meiri ábyrgð í leik íslenska liðsins nú þegar Ólafur Stefánsson hefur lagt landsliðsskóna á hilluna.

„Mér er alveg sama hvað fólk er að segja eða hugsa. Ég ætla bara að gera mína hluti vel, mæta á staðinn, gefa allt og svo fara," sagði Alexander í léttum tón.

„Ég held að við munum gera mörg mistök í vörninni en þeir gera það örugglega líka. Þetta verður mjög erfiður leikur en við vinnum þetta með fjórum mörkum," sagði Alexander að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×