Skoski tennismaðurinnn Andy Murray varð nú rétt í þessu fyrsti Bretinn í 77 ár til þess að vinna Wimbledon-mótið í tennis í karlaflokki.
Murray atti kappi við Serbann Novak Djokovic í úrslitum en Djokovic er einmitt í efsta sæti heimslistans á meðan Murray er í öðru sæti listans.
Hann sýndi frábæra spilamennsku í dag og virtist frá upphafi staðráðinn í að landa titlinum. Murray vann öll settin, 6-4, 7-5 og 6-4 og var því vel að sigrinum kominn.
Murray hefur verið á mikilli uppleið á undanförnum árum og vann hann meðal annars Ólympíugull síðasta sumar.
