Innlent

„Siggi hakkari“ grunaður um milljónasvik

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sigurður Þórðarson kom til fundar við allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í febrúar til að ræða aðgerðir FBI á Íslandi sumarið 2011.
Sigurður Þórðarson kom til fundar við allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í febrúar til að ræða aðgerðir FBI á Íslandi sumarið 2011. mynd/gva

Tvítugur karlmaður var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald fyrir helgi vegna gruns um stórfelld fjársvik. Samkvæmt heimildum Vísis er um Sigurð Inga Þórðarson að ræða, en hann er betur þekktur sem „Siggi hakkari“, og er málið sagt viðamikið.

Grímur Grímsson hjá rannsóknardeild lögreglunnar staðfestir að maður sé í gæsluvarðhaldi vegna fjársvikamála, og að um fleiri en eitt mál sé að ræða.

Maðurinn er sagður hafa „með prettum“ sölsað undir sig bókaforlag sem hann sagðist hafa áhuga á að kaupa. Honum hafi verið veitt prókúruumboð og hafi í kjölfarið keypt ýmsar vörur á borð við tölvur, síma og bíómiða í miklu magni.

Upphæðin er talin nema um 5 til 6 milljónum króna hið minnsta, en ástæða gæsluvarðhaldskröfunnar er sögð sú að koma í veg fyrir að hann torveldaði rannsóknina á meðan reynt er að komast að því hversu umfangsmikið málið er.

Sigurður Ingi komst í fréttir fyrr á árinu, meðal annars þegar Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, kærði Sigurð fyrir fjársvik og þjófnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×