Erlent

Staðfest að Amy Winehouse lést af áfengiseitrun

Búið er að staðfesta að breska söngkonan Amy Winehouse lést af völdum áfengiseitrunnar.

Ýmsar sögur fóru á kreik um andlát þessarar vinsælu söngkonu þegar hún féll óvænt frá sumarið 2011 aðeins 27 ára gömul. Sögurnar gengu meðal annars út á óhóflega eiturlyfjaneyslu dagana fyrir andlátið.

Sögurnar fengu byr undir báða vængi þegar í ljós kom að læknirinn sem gaf út dánarvottorðið á sínum tíma hafði ekki tilskylda menntun til að kveða upp úr um málið. Sá læknir úrskurðaði raunar að Amy hefði látist af áfengiseitrun. Hinsvegar var ákveðið að rannsaka málið nánar.

Þegar Amy Winehouse fannst látin í íbúð sinni í London var vitað að hún hafði verið í gífurlegu sukki vikurnar á undan.

Hin nýja rannsókn leiðir í ljós að áfengismagnið í blóði Amy var rúmlega 4 prómill eða áttfalt yfir leyfilegum mörkum þegar kemur að akstri bíla. Slíkt áfengismagn í blóði leiðir yfirleitt til dauða viðkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×