Tónlist

Dagur Íslensku tónlistarverðlaunanna runninn upp



Vilhelm Anton Jónsson og Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, verða kynnar á Íslensku tónlistarverðlaununum sem verða afhent í 19. sinn í Silfurbergi í Hörpu í kvöld.

Hluti verðlaunaafhendingarinnar fer fram í beinni útsendingu Sjónvarpsins þar sem fram koma nokkrar af vinsælustu hljómsveitum landsins, Retro Stefson, Valdimar og Ásgeir Trausti, ásamt Daníel Bjarnasyni, Skúla Sverris, Óskari Guðjóns og Hamrahlíðarkórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Búið er að tilkynna þrenn verðlaun.

Þorgerður hlýtur heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna. Þá hlaut Ragnar Fjalar Lárusson verðlaun fyrir umslag Ojba Rasta og Magnús Leifsson fyrir myndbandið Glow með Retro Stefson.

Hægt er að sjá umslagið hér neðst í greininni og horfa á myndbandið í spilaranum hér fyrir ofan.

Veitt verða verðlaun í 23 flokkum. Tilnefningarnar eru:

1. LAGAHÖFUNDUR ÁRSINS (Popp og rokk)

Ásgeir Trausti - Fyrir lög á plötunni Dýrð í dauðaþögn sem er óvenju heilsteypt og vel mótuð frumraum listamannsins.

Jónas Sigurðsson - Fyrir lög á plötunni Þar sem himin ber við haf þar sem hann á magnað stefnumót við tónlistarfólk frá æskuslóðum sínum í Þorlákshöfn.

Moses Hightower - Fyrir lög á plötunni Önnur Mósebók þar sem unnið er með sálarhljóminn á lágstemndum hrynrænum nótum á skapandi hátt.

Unnsteinn Manuel Stefánsson - Fyrir lög á plötunni Retro Stefson þar sem sveitin heldur áfram að þróa tónmál sitt á ferskan og grípandi hátt.

Hljómsveitin Valdimar - Fyrir lög á plötunni Um stund sem sýnir og sannar að óvænt og kröftug innkoma sveitarinnar í íslenskt popplíf fyrir tveimur var alls engin tilviljun.

2. LAG ÁRSINS (Popp og rokk)

Baldursbrá - Í flutningi Ojba Rasta - Lag og texti: Arnljótur Sigurðsson. Grípandi reggae þar sem íslenskur veruleiki er undirstrikaður rækilega í textanum.

Glow - Í flutningi Retro Stefson - Lag og texti: Unnsteinn Manuel Stefánsson. Vel samsett danspopp sem skapar góða stemningu og fær fólk til að hreyfa sig í takt við hljómfallið.

Leyndarmál - Í flutningi Ásgeirs Trausta - Lag: Ásgeir Trausti, Texti: Einar Georg Einarsson og Júlíus Aðalsteinn Róbertsson. Sambræðsla suðlægra undirtóna, hrynrænnar spennu og söngtexta sem hjálpast að við að skapa óvenjulegt og seiðandi popplag.

Sjáum hvað setur - Í flutningi Moses Hightower - Lag: Moses Hightower, Texti: Andri Ólafsson og Steingrímur Karl Teague. Sálarskotið rytmapopp með afslöppuðu grúfi sem skapar vellíðan og fær fólk til að slá taktinn með.

Tenderloin - Í flutningi Tilbury - Lag og texti: Þormóður Dagsson. Frábært lag sem sýnir nýja hlið á tónlistarmanni sem hefur komið víða við á ferli sínum.

3. SÖNGVARI ÁRSINS (Popp, rokk, djass og blús)

Andri Ólafsson - Fyrir sálarfullan og tilfinningaríkan söng á plötu Moses Hightower, Önnur Mósebók sem er rökrétt framhald plötunnar Búum til börn.

Ásgeir Trausti - Fyrir einlægan og heillandi söng á fyrstu plötu sinni, Dýrð í dauðaþögn, sem hæfði beint í mark.

Steingrímur Teague - Fyrir næma og litríka söngtúlkun á plötu Moses Hightower, Önnur Mósebók sem setur ný viðmið í sálarskotnu íslensku poppi.

Unnsteinn Manuel Stefánsson - Fyrir góðan söng og framkomu með hljómsveitunum Retro Stefson, Nýdönsk o.fl. og í Áramótamóti Hljómskálans.

Valdimar Guðmundsson - Fyrir flotta túlkun á fjölbreyttri tónlist á hljómleikum, hljómplötum og í Hljómskálanum.

4. SÖNGKONA ÁRSINS (Popp, rokk, djass og blús)

Andrea Gylfadóttir - Fyrir tjáningafullan söng á fimmtugsafmælistónleikum sínum og með hljómsveitinni Todmobile.

Eivör - Fyrir tígurlega, heillandi og tilfinningaríkan söng á plötunni Room.

Ellen Kristjánsdóttir - Fyrir persónulegan og tjáningaríkan söng á plötunni Sönglög og á plötu Mannakorna Í blómabrekkunni.

Nanna Bryndís Hilmarsdóttir - Fyrir frábæran árangur og söng á tónleikum með Of Monsters and Men í Hljómskálagarðinum og á Iceland Airwaves.

Sigríður Thorlacius - Fyrir fjölhæfni í söngtúlkun við flutning margvíslegra verkefna á tónleikum og hljómplötum.

5. TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS (Popp, rokk, djass og blús)

Jónas Sigurðsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar - Fyrir skemmtilegt samstarf og glæsilega útgáfutónleika í Þorlákshöfn.

Retro Stefson - Fyrir líflega sviðsframkomu og dúndrandi stuð sem skapast jafnan á tónleikum sveitarinnar.

Sigur Rós - Fyrir vandaða og þétta spilamennsku og myndræna tónleika sem snertu við tónleikagestum.

Skálmöld - Fyrir kröftugan tónflutning og nýstárlega sambræðslu tóna og texta sem tengjast þjóðararfinum.

Skúli Sverrisson - Fyrir tónleikahald á árinu þar sem áherslan var á dýpt og einfaldleika.

6. HLJÓMPLATA ÁRSINS (Popp og rokk)

Division of Culture and Tourism – Ghostigital. Flott rafpopp með sterkum einkennum og eftirminnilegri þátttöku ólíkra gestasöngvara.

Dýrð í dauðaþögn - Ásgeir Trausti. Sérstaklega þroskað byrjendaverk með skýrum og persónulegum einkennum.

God's Lonely Man - Pétur Ben. Vel ígrunduð og vönduð hljómplata sem ber höfundi sínum gott vitni.

Retro Stefson – Retro Stefson. Glæsileg þriðja plata frá einni líflegustu hljómsveit landsins.

Um stund - Valdimar. Leiftrandi framhald hjá hljómsveit sem stimplaði sig rækilega inn fyrir tveimur árum.

Þar sem himin ber við haf - Jónas Sigurðsson. Vel heppnuð plata þar sem bryddað er upp á nýjungum og áhugaverðu samstarfi.

Önnur Mósebók - Moses Hightower. Rökrétt og vandað framhald plötunnar Búum til börn sem treystir stöðu Moses Hightower enn frekar.

7. TÓNHÖFUNDUR ÁRSINS (Djass og blús)

Agnar Már Magnússon - Fyrir verk á plötunni Hylur þar sem flæðandi píanóleikur í anda spunans nýtur sín til fullnustu.

Andrés Þór Gunnlaugsson - Fyrir verk á plötunni Mónókróm þar sem heildstætt svipmót og persónlegur stíll eru í fyrirrúmi.

Scott McLemore - Fyrir verk á plötunni Remote Control þar sem áhrif tveggja heima mætast í stílhreinni sköpun.

Skúli Sverrisson - Fyrir verk á plötunni The Box Tree þar sem sérkenni Skúla sem tónsmiðar komast frábærlega til skila.

Tómas R. Einarsson - Fyrir verk á plötunni Laxness þar sem margbreytilegar tónhendingar styðja kvikmyndaverk af öryggi.

8. TÓNVERK ÁRSINS (Djass og blús)

Bjartur – Tómas R. Einarsson. Djúpt dramatísk ljóð í ljúfum tónum.

Fragments – Skúli Sverrisson. Seiðandi djassópus sem sækir á hugann.

Mónókróm – Andrés Þór Gunnlaugsson. Margbreytileg lagasmíð með tónrænni spennu.

Remote Location – Scott McLemore. Íhugult margslungið verk, með sterkri tilvísun í djasshefðina.

9. HLJÓMPLATA ÁRSINS (Djass og blús)

Hylur – Agnar Már Magnússon. Impressjónískur spuni þar sem leitað er fanga í fjölbreyttum hugmyndaheimi píanistans.

Morgana's Revenge – Björn Thoroddsen og Richard Gillis. Björn og Vestur-Íslendingurinn Richard Gilles í hópi frábærra kanadískra hljóðfæraleikara þar sem hin ýmsu stílbrigði djassins njóta sín firnavel.

Mónókrom – Andrés Þór Gunnlaugsson. Glæsilega vel samspilaður kvartett glímir við spennandi tónlist Andrésar Þórs.

Remote Location – Scott McLemore. Lágstemmd en jafnframt djörf tónlist Scotts blómstrar með íslenska kvintettinum hans.

The Box Tree – Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson. Skúli og Óskar leiða okkur að nýju inní töfraheim tóna sinna, sem hafa haft áhrif víða.

10. TEXTAHÖFUNDUR ÁRSINS (Allir flokkar)

Andri Ólafsson og Steingrímur Teague - Fyrir texta á plötunni Önnur Mósebók.

Einar Georg Einarsson - Fyrir texta á plötunni Dýrð í dauðaþögn.

Hjalti Þorkelsson, Guðni Gunnarsson og Eiríkur Fannar Torfason (Hljómsveitin Múgsefjun) - Fyrir texta á plötunni Múgsefjun.

Jónas Sigurðsson - Fyrir texta á plötunni Þar sem himin ber við haf.

Snæbjörn Ragnarsson - Fyrir texta á plötunni Börn Loka.

11. TÓNLISTARVIÐBURÐUR ÁRSINS (Allir flokkar)

Iceland Airwaves - Fyrir fjölbreytni og vel heppnaða hátíð.

Jazzhátíð Reykjavíkur - Fyrir að efla djasslíf í landinu.

Mugison í Hörpu - Fyrir ákaflega vel heppnaðan lokapunkt á farsælu ári 2011.

Reykjavik Midsummer Music - Sjaldan hefur kammertónlist verið flutt hér á landi af jafnmikilli andagift og eldmóði og á þessari hátíð.

Sigur Rós á Iceland Airwaves - Fyrir magnaða tónleika í Laugardalshöll. Tectonics - Áræðin og spennandi hátíð undir listrænni stjórn Ilans Volkovs.

12. UPPTÖKUSTJÓRI ÁRSINS (Allir flokkar)

Alex Sommers & Sigur Rós - Fyrir plötuna Valtari.

Christopher Tarnow - Fyrir Vetrarferðina.

Georg Magnússon – Fyrir Abel, geislaplötu Nordic Affect hópsins.

Guðmundur Kristinn Jónsson - Fyrir plöturnar Dýrð í dauðaþögn, Okkar menn á Havana, tónlist í Hljómskálanum o.fl. verkefni.

Magnús Árni Öder Kristinsson - Fyrir plöturnar Moment með Láru Rúnars og Önnur Mósebók með Moses Hightower.

Styrmir Hauksson & Hermigervill - Fyrir plötuna Retro Stefson.

13. TÓNHÖFUNDUR ÁRSINS (Sígild- og samtímatónlist)

Anna Þorvaldsdóttir - Fyrir verkið Scape. Anna er listamaður með sterka sýn og eigin rödd í verkum sínum.

Áskell Másson - Fyrir Hornkonsert. Þar nýtir Áskell hljóðfærið og náttúrutónaraðir þess á áhrifaríkan hátt.

Daníel Bjarnason - Fyrir The Isle is Full of Noises og Over Light Earth. Vel samin og áheyrileg verk Daníels Bjarnasonar hafa vakið verðskuldaða athygli undanfarið.

Hugi Guðmundsson - Fyrir verkið Orkestur. Hugi leitar fanga víða og skeytir saman ólíkum heimum í verkum sínum með eftirtektarverðri útkomu.

Þórður Magnússon - Fyrir verkið Saxófónkvartett. Spennandi verk sem sameinar húmor og rótgrónar hefðir.

14. TÓNVERK ÁRSINS (Sígild- og samtímatónlist)

Hornkonsert -Áskell Másson. Vel fléttuð heild. Í verkinu nýtir Áskell hljóðfærið og náttúrutónaraðir þess afar vel.

The Isle is Full of Noises - Daníel Bjarnason. Verkið nær vel andrúmslofti fegurðar og átaka í anda yrkisefnisins.

Orkestur - Hugi Guðmundsson. Í verkinu teflir Hugi fram andstæðum í blæ og stemmningu. Upphafið er gegnsætt en svo hefst annar kafli með miklu brassi og alveg nýjum tón. Glæsilegt og skemmtilegt verk.

Saxófónkvartett - Þórður Magnússon. Spennandi verk – húmor – eitthvað ferskt og nýtt – samt tengt rótgrónum hefðum.

Scape - Anna Þorvaldsdóttir. Scape fyrir “undirbúið píano” er í senn gegnsætt, fínlegt, drungalegt og spennandi. Hér hefur Anna enn einu sinni slegið nýjan tón.

15. TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS (Sígild- og samtímatónlist)

Einar Jóhannesson - Fyrir flutning á Reykjavik Midsummer Music í Hörpu í júní síðastliðnum. Sérstaklega er eftirminnilegur flutningur hans í Kvartetti um endalok tímans eftir Messiaen.

Elfa Rún Kristinsdóttir - Fyrir fiðlupartinn í Sinfonia concertante eftir Mozart á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sl. vor og flutning með kammersveit sinni Kaleidoscope á tónlistarhátíð í Hörpu í október.

Joseph Ognibene, hornleikari og Petri Sakari, stjórnandi - Fyrir frumflutning á Hornkonserti Áskels Mássonar með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Mótettukór Hallgrímskirkju - Fyrir flutning á Níundu sinfóníu Beethovens, Messu í c-moll eftir Mozart og Óttusöngva á vori eftir Jón Nordal og margt fleira á sérlega öflugu 30 ára afmælisári sínu.

Sinfóníuhljómsveit Íslands - Á árinu tókst hljómsveitin á við margbreytileg verk á áræðinn og ferskan hátt. Meðal hápunkta ársins má nefna Beethoven-hringinn og Tectonics hátíðina.

Víkingur Heiðar Ólafsson - Fyrir flutning bæði sem einleikari og kammermúsikspilari á fjölmörgum tónleikum. Hann miðlar tónlistinni á persónulegan og einlægan hátt og tekur áheyrendur með sér í ferðalag inn í undraveröld tónlistarinnar.

16. SÖNGVARI ÁRSINS (Sígild- og samtímatónlist)

Ágúst Ólafsson - Ágúst flutti Des Knaben Wunderhorn af einstöku næmi og listfengi í Salnum í Kópavogi í október.

Gissur Páll Gissurarson - Lyrísk rödd hans naut sín til fulls í eftirminnilegri túlkun á Rodolfo í La Boheme, einu af stærstu tenórhlutverkum óperubókmenntanna.

Hrólfur Sæmundsson - Glæsileg baritónrödd hans naut sín afar vel í hlutverki Shaunards í La Boheme í vor og var túlkun hans sérlega sannfærandi.

Kristinn Sigmundsson - Kristinn kom fram á tónleikum ásamt Víkingi Heiðari Ólafssyni í nóvember. Kristinn söng þar valin verk eftir Schumann, Mahler og Wolf og líður sú túlkun þeim sem á hlýddu seint úr minni.

Viðar Gunnarsson - Heillandi og mikilfengleg túlkun á hinum valdsmannslega herforingja Ferrando í Il Trovatore í haust.

17. SÖNGKONA ÁRSINS (Sígild- og samtímatónlist)

Alina Dubik - Heilsteypt og sannfærandi túlkun á Azucenu í uppfærslu Íslensku óperunnar á Il Trovatore í haust þar sem dökk og mjúk rödd hennar passaði hlutverkinu vel.

Elsa Waage - Elsa söng hlutverk Azucenu í uppfærslu Íslensku óperunnar á Il Trovatore í haust. Sterk nærvera hennar og túlkun á sviði var eftirminnileg í alla staði.

Herdís Anna Jónasdóttir - Ungstirnið Herdís Anna Jónasdóttir sópran var atkvæðamikil í íslensku tónlistarlífi á árinu. Hún söng meðal annars hlutverk Musettu í uppfærslu Íslensku óperunnar á La Boheme í vor.

Hulda Björk Garðarsdóttir - Hulda Björk söng á árinu tvö af helstu sópranhlutverkum óperubókmenntanna, Mimi í La Boheme og Leonóru í Il Trovatore, og gerði það frábærlega.

Þóra Einarsdóttir - Þóra kom víða við í íslensku tónlistarlífi í ár. Hún söng meðal annars hlutverk Mimiar í La Boheme og frammistaða hennar í einu af einsönghlutverkum c-moll messu Mozarts var framúrskarandi.

18. HLJÓMPLATA ÁRSINS (Sígild- og samtímatónlist)

Abel – Nordic Affect og Georgia Browne. Þessi fyrsti geisladiskur Nordic Affect hópsins er afrakstur mikilla rannsókna. Brakandi ferskur flutningur á verkum þessa lítt þekkta tónskálds.

Klarinettukonsertar - Einar Jóhannesson og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einstakur vitnisburður um einn af allra bestu listamönnum þjóðarinnar í einleikshlutverki í verkum eftir Mozart, Weber, Debussy og Jón Nordal.

Ljóð/Lieder/Songs – Auður Gunnarsdóttir og Andrej Hovrin. Auður hefur glæsilega rödd og er túlkun hennar á tónlist ólíkra tónskálda fagmannleg og músikölsk.

Stafnbúi - Steindór Andersen og Hilmar Örn Hilmarsson. Á þessum hljómdiski flytur Steindór Andersen tólf stemmur á sinn einstaka hátt við heillandi útsetningar Hilmars Arnar.

Vetrarferðin - Kristinn Sigmundsson og Víkingur Heiðar Ólafsson. Hér fær meistaraverk Franz Schuberts, ljóðaflokkurinn Vetrarferðin, einhverja bestu mögulegu meðhöndlun sem hægt er að hugsa sér.

Einnig stendur yfir val á Vinsælasta flytjanda ársins hér á tonlist.is.

Umslag ársins er af plötu Ojba Rasta eftir Ragnar Fjalar Lárusson.
.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.