Innlent

Meintur banamaður neitar að tjá sig um sakarefnið

Helga Arnardóttir skrifar
Maðurinn sætir nú gæsluvarðhaldi á Litla Hrauni.
Maðurinn sætir nú gæsluvarðhaldi á Litla Hrauni. Mynd/ E. Ól.
Karlmaður á þrítugsaldri sem grunaður er um að hafa orðið tæplega sextugum karlmanni að bana á Egilsstöðum í vikunni neitar að tjá sig um sakarefnið og verður því ekki yfirheyrður aftur fyrr en gagnaöflun og rannsókn lögreglu er lokið. Krufning hefur leitt í ljós að hinum látna blæddi út af völdum áverka sem hann hlaut.

Lögreglurannsókn hefur staðið yfir allt frá því á þriðjudagsmorgun þegar tilkynnt var til lögreglu að karlmaður hefði fundist látinn á svölum íbúðar sinnar að Blómvangi á Egilsstöðum.

Hinn látni var 59 ára og hét Karl Jónsson. 24 ára karlmaður og nágranni hins látna var handtekinn sama morgun grunaður um verknaðinn en hann var þá staddur í íbúð sinni í sama húsi ásamt 22 ára barnsmóður og átta mánaða gömlu barni. Lögreglan á Eskifirði fer með rannsókn málsins en rætt hefur verið við allflesta íbúa í húsinu þar sem verknaðurinn átti sér stað. Vettvangsrannsókn er lokið og er unnið að því að greina öll sönnunargögn. Hinn grunaði hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald og fluttur til Reykjavíkur þar sem hann dvelur á Litla hrauni.  Hann hefur kosið að tjá sig ekki um sakarefnið en hefur hvorki játað né neitað sök.

„Þegar við höfum greint þessi gögn, farið yfir alla hluti og sett þetta allt saman þá munum við ræða við hann. Ef hann sjálfur kýs að ræða við okkur fyrir þann tíma mun hann gera vart við sig," segir Jónas Wilhelmsson Jensen yfirlögregluþjónn.  

Hann hefur því ekki verið yfirheyrður formlega fyrir utan skýrslutöku lögreglu áður en hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Krufningu hins látna er lokið og þykir ljóst að honum hafi blætt út vegna áverka sem hann hlaut. Fréttablaðið greinir frá því samkvæmt sínum heimildum að stór eldhúshnífur hafi fundist á morðvettvangi,  hinn látni hafi verið með marga áverka, blóð hafi verið út um allt á vettvangi og ljóst hafi verið að árásin hafi verið ofsafengin en Jónas getur ekki staðfest þær fregnir. Hann segir að flest bendi til að hinn grunaði hafi orðið Karli Jónssyni að bana.  Ekki sé ástæða til að ætla að annar hafi komið að málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×