Fótbolti

Þróttarar leggja inn aðra umsókn vegna bjórtjalds

Jón Kaldal og félagar í Þrótti gefast ekki upp.
Jón Kaldal og félagar í Þrótti gefast ekki upp.

Ekkert verður af því að bjórtjald verði reist nærri félagsheimili Þróttar fyrir landsleik Íslands og Slóveníu. Þróttarar hafa þó ekki lagt árar í bát. Í gær fengu Þróttarar synjun á umsókn sína um bjórtjaldið og þeir eru hissa á þeim úrskurði.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hafnaði umsókninni á þeim forsendum að ekki væri hægt að vera með áfengi á svæði sem væri ætlað börnum og unglingum.

"Á sama tíma er verið að halda veislur í Laugardalshöllinni þar sem ekki bara er verið að selja bjór heldur einnig sterkt áfengi. Ég veit ekki betur en að það svæði sé líka ætlað börnum og unglingum. Mér finnst borgin vera komin í mótsögn við sjálfa sig," segir Jón Kaldal, formaður knattspyrnudeildar Þróttar.

Jón bendir á að það hafi verið áfengissala í Laugardalnum áður.

"Á heimsmeistaramótinu í handbolta árið 1995 var bjórtjald við Laugardalshöllina. Við viljum selja bjór í tvo tíma en þeir seldu bjór í tvær vikur. Fordæmið fyrir bjórsölu á þessu svæði er því til staðar."

Þróttarar hafa ekki gefið upp vonina um að reisa bjórtjald í Dalnum og hafa lagt inn nýja umsókn um að reisa tjaldið á svokölluðum þríhyrningi sem er nær Skautahöllinni.

Sú umsókn liggur nú inn á borði hjá byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar.


Tengdar fréttir

Enn óvíst hvort við fáum áfengisleyfi

Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag þá stendur til að vera með skemmtun fyrir áhorfendur áður en landsleikur Íslands og Slóveníu hefst í byrjun júní.

Bjór líklega seldur í Laugardalnum

Fram kom á blaðamannafundi KSÍ í dag að boðið verði upp á ýmsar uppákomur fyrir landsleikinn gegn Slóvenum í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×