Tónlist

Tinie Tempah skrifar í stjörnur á Íslandi

Tinna Rós Steinsdóttir skrifar
Rapparinn Tinie Tempah hefur öðlast miklar vinsældir á skömmum tíma og stefnir nú til Íslands, því hann er væntanlegur á Keflavík Music Festival 5.-9. júní næstkomandi.

Patrick Chukwuem Okogwu, betur þekktur sem Tinie Tempah eða einfaldlega T, er fæddur í London árið 1988. Frá því að hann var uppgötvaður árið 2009 hefur frægðarsól hans risið hratt og örugglega. Árið 2010 var tvímælalaust hans ár, en þá gaf hann út sitt fyrsta lag, Pass Out. Lagið náði efsta sæti breska vinsældalistans og hélt sætinu í tvær vikur. Aðeins fjórum mánuðum eftir að Pass Out kom út stóð Tempah á sviði með Snoop Dogg og flutti lagið.

Þriðja lag hans, Written in the Stars, náði einnig efsta sæti listans og seldist í yfir 115.000 eintökum í fyrstu vikunni eftir að það kom út. Það er vinsælasta lag Tempah til dagsins í dag og flutti hann það meðal annars á lokahátíð Ólympíuleikanna í London síðastliðið sumar, ásamt Jessie J og Taio Cruz.

Hann var tilnefndur til fjögurra Brit-verðlauna árið 2011 og hlaut tvenn, fyrir besta nýja atriðið og besta lagið. Auk þessa var Tinie tilnefndur fyrir bestu plötuna og sem besti karlsöngvarinn. Þar fyrir utan hefur hann hlotið fjölda annarra verðlauna og tilnefninga.

Þegar rapparinn var spurður um hápunkt þessa magnaða árs 2010 var hann hógværðin uppmáluð og sagði það vera þegar hann fór í heimsókn í gamla grunnskólann sinn og var sýnt tónlistarver sem hafði verið sett upp í hans nafni.

Tempah hefur fylgt velgengninni vel eftir og nafn hans er nú orðið þekkt um allan heim. Önnur plata hans, Demonstration hefur verið í vinnslu síðustu tvö ár og er væntanleg á árinu. Á henni slást meðal annars þau Chris Martin og Emeli Sandé í för með rapparanum, auk þess sem góðvinur hans Labrinth lætur aftur til sín taka.

Miðasala á Keflavík Music Festival er nú í fullum gangi á keflavikmusicfestival.is og eru miðar á forsöluverði, 9.900 krónur, fram yfir helgi. Á mánudaginn hækkar miðaverðið í 13.500 og á sama tíma hefst salan á miðum í öllum helstu verslunum N1.

Hefur unnið með stórum nöfnumTempah hefur unnið með fjölda stórra nafna og gefið út nokkur gríðarlega vinsæl lög. Hann hefur meðal annars farið á tónleikaferðalög með Rihönnu, Jay-Z og Usher og á meðal aðdáenda hans má telja Harry Bretaprins, P. Diddy og Paris Hilton.

Labrinth er mikill vinur Tempah og hafa þeir unnið mikið saman, meðal annars að lögunum Frisky og Earthquake. Bandaríski söngvarinn Eric Turner söng með honum í hans vinsælasta lagi hingað til, Written in the Stars.

Swedish House Mafia aðstoðaði hann við smellinn Miami 2 Ibiza. Kelly Rowland úr Destiny?s Child vann með honum í laginu Invincible og Emeli Sande gerði svo með honum lagið Let Go. Nýjasti smellur hans, Drinking From a Bottle, vann hann með Calvin Harris, sem er einn þekktasti upptökustjóri í heiminum í dag.

Best klæddurTempah er fleira til lista lagt en að rappa og er hann meðal annars afar tískusinnaður. Hann hefur mikinn áhuga á tísku og stofnaði sitt eigið fatamerki á síðasta ári, hannaði íþróttaskó fyrir Nike og tók sæti í karlanefnd London Collections.

Hann er ávallt flottur í tauinu og var til að mynda valinn best klæddi maður ársins 2012 af karlatímaritinu GQ og prýddi forsíðu þess í kjölfarið.




Tengdar fréttir

DMX kemur á stóra hátíð í Keflavík

"Það verða tíu erlend atriði á hátíðinni og ég get staðfest að DMX er eitt þeirra, en hann er ekki það stærsta. Auk þess verður þarna rjóminn af íslensku tónlistarsenunni,“ segir umboðsmaðurinn Ólafur Geir Jónsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×