Innlent

Skrautlegir staurar lífga upp á Laugaveg

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Guðbrandur kaupmaður segir að götuvitarnir séu gerðir til að afmarka Vitahverfið. Þar að auki eru þeir fallegir fyrir augað.
Guðbrandur kaupmaður segir að götuvitarnir séu gerðir til að afmarka Vitahverfið. Þar að auki eru þeir fallegir fyrir augað.

Vegfarendur ofarlega á Laugavegi hafa vafalaust tekið eftir skrautlegum staurum sem skotið hafa upp kollinum þar síðustu daga. Staurarnir eru hugsaðir sem vitar og eru hluti af samstarfsverkefni nýstofnaðs Vitahverfis, en undir það heyra verslunirnar Kron Kron, Kiosk, GK og Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar ásamt Kex hosteli.

„Við fengum þá hugmynd að skilgreina hverfið betur og setja þessar verslanir undir sama hatt. Það er ekki nógu mikil kynning á þessi svæði, en fókusinn  er oft frekar á neðri hluta Laugavegar. Þess vegna var upplögð hugmynd að teygja aðeins úr miðbænum, lífga upp á svæðið og gera eitthvað saman,“ segir Guðbrandur kaupmaður í Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar og forsprakki Vitahverfisins.

„Nafnið á  hverfinu kemur frá gamla vitanum sem var á þessum slóðum og Vitastígur dregur nafn sitt af. Þá er í bígerð hjá Kex Hostel að byggja vita til skrauts á næstu mánuðum,“ segir Guðbrandur. Staurarnir sem nú er búið að breyta í vita þjónuðu upphaflega þeim tilgangi að afmarka gangstéttina.  Til stóð að fjarlægja alla stauranna en Vitahverfið fékk að halda þeim til að lífga upp á hverfið.

Verslanirnar fengu listamanninn Sigga Odds til liðs við sig við hönnun litlu vitanna. Hann mikið af íslenskum vitum í gegnum tíðina, hvernig litum þeir voru málaðir í og hvaða mynstur voru notuð. Að því loknu var valin litapalletta og mynstur við hæfi og tilskilin leyfi fengin frá Reykjavíkurborg. „Fyrsta skrefið í að afmarka hverfið er að skilgreina það sjónrænt og þetta er okkar leið til þess. Við erum rétt að byrja, það verða mikið af sameiginlegum skreytingum, uppákomum og hátíðum í hverfinu á næstu mánuðum “ segir Guðmundur að lokum.

Vitahverfið í miðbæ Reykjavíkur.MYND/VITAHVERFIÐ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×