Viðskipti innlent

Bremenports fjármagnar rannsóknir vegna nýrrar hafnar í Finnafirði

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í Bremerhaven. Bremenports taka með Íslendingum þátt í að kanna tækifæri vegna bráðnunar heimskautaíssins.
Í Bremerhaven. Bremenports taka með Íslendingum þátt í að kanna tækifæri vegna bráðnunar heimskautaíssins. Nordicphotos/AFP
Sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafa gengið til samstarfs við Bremenports í Þýskalandi um rannsóknir og prófanir vegna mögulegrar uppbyggingar athafna- og hafnarsvæðis í Finnafirði.

„Í nýju aðalskipulagi Langanesbyggðar er gert ráð fyrir umtalsverðum umsvifum vegna umskipunar- og þjónustuhafar í Finnafirði,“ segir í tilkynningu frá Siggeiri Stefánssyni oddvita Langanesbyggðar og Þorsteini Steinssyni sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps.

Bremenports er meðal stærstu rekstrar-og umsýsluaðila umskipunarhafna í Evrópu og er höfnin í Bremerhafen næststærsta höfn sinnar tegundar í Þýskalandi.

Fram kemur í tilkynningunni að Bremenports hafi umsjón með og annist fjármögnun á rannsóknarvinnu sem framundan sé vegna verkefnisins, en EFLA verkfræðistofa verði samningsaðilum til ráðgjafar.

Í opinberri heimsókn sinni til Þýskalands kemur Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, til Bremen í dag og kynnir verkefnið.

Í hátíðarræðu í Berlín á þriðjudag sagði Ólafur Ragnar að íslenskar hafnir gætu orðið „traustur hlekkur í nýrri keðju vöruflutninga í norðri sem mun tengja Evrópu við Asíu á nýjan hátt“.

Tekið er fram í tilkynningunni að nýja höfnin í Finnafirði sé á svæði sem liggi sunnan Gunnólfsvíkurfjalls og er rétt sunnan við Þórshöfn. 



„Landfræðilegar aðstæður eru taldar góðar í Finnafirði, bæði í landi og á sjó. Fyrirhugað hafnarsvæði bíður upp á  nokkur hundruð hektara burðarhæfs flatlendis og möguleikum á byggingu viðlegukanta með allt að 24 m dýpi. Öldufar og veðurfar er samkvæmt fyrstu athugunum talið hagstætt.“

Bremenports er að fullu sagt í eigu sambandslandsins Bremen í Þýskalandi og horfir til þess möguleika að eiga samstarf við sveitarfélögin á svæðinu um fyrirhugaða Finnafjarðarhöfn.



„Fyrirtækið hefur kynnt sér mögulega valkosti víða í tengslum við umskipunarhöfn á Norður Atlantshafi og telur allt benda til þess að aðstæður í Finnafirði séu ákjósanlegar.“

Fram kemur í tilkynningu sveitarstjórnarmannanna að um gríðarlega stórt fjárfestingarverkefni sé að ræða sem krefjist fjölbreytilegrar rannsóknarvinnu, sem verði unnin af íslenskum og erlendum sérfræðingum á næstu árum.

„Forsætisráðuneytið ásamt fagráðuneytum sem um málið fjalla eru upplýst um áformin og verða næstu skref í verkefninu fljótlega kynnt nýjum ráðherrum,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×