Innlent

Vilja breyta nafni Samfylkingarinnar

Boði Logason skrifar
Þær Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og Margrét S. Björnsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar flokksins, vilja breyta nafni Samfylkingarinnar og ætla að leggja fram tillögu þess efnis á landsfundi flokksins sem fer fram í byrjun febrúar.

Þær vilja að flokkurinn heiti Samfylkingin - Jafnaðarmannaflokkur Íslands, og verði ritað þannig í lögum flokksins, þar sem nafnið kemur fyrir.

Í greinargerð með tillögunni segir að þegar Samfylkingin hafi verið stofnuð árið 2000 á grunni fjögurra stjórnmálahreyfinga hafi verið leitast við að finna nafn sem ekki gæfi til kynna yfirtöku einhverrar þeirra, heldur jafnræði allra. Þannig hafi heitið Samfylking orðið til.

„Í dag tólf árum síðar líta flokksfélagar ekki lengur til þess hvaðan þeir komu, heldur hvað það er sem sameinar þá og má með nokkurri einföldun segja að það sé jafnaðarstefnan," segir í greinargerðinni.

„Á tímabili var rædd sú hugmynd að breyta nafni flokksins í Jafnaðarflokkur Íslands. Að mati tillöguflytjenda er það heiti ekki jafn gagnsætt og það sem hér er lagt til og ekki í samræmi við þá málnotkun sem almenningi er töm, sem sést best á því að þegar koma til umræðu systurflokkar okkar eða -samtök er ávallt talað um jafnaðarmannaflokka," segir ennfremur í greinargerðinni sem nálgast má hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×