Erlent

Mislingar sækja í sig veðrið

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Mislingar voru mun algengari áður fyrr og greindust hundruð þúsunda tilfella á ári í Bandaríkjunum.
Mislingar voru mun algengari áður fyrr og greindust hundruð þúsunda tilfella á ári í Bandaríkjunum.
Árið 2013 stefnir í að verða metár í fjölda greininga á mislingum í meira en áratug í Bandaríkjunum. Ástæða aukningarinnar er að sögn heilbrigðisyfirvalda foreldrar sem láta ekki bólusetja börn sín við sjúkdómnum.

Það komu upp 159 tilfelli af mislingum á tímabilinu 1. janúar til 24. ágúst samkvæmt nýrri skýrslu frá sóttvarnarlækni. Að öllu óbreyttu mun árið verða metár í tilfellum frá árinu 1996, en það ár greindust fleiri en 500 með sjúkdóminn.

Mislingar voru mun algengari áður fyrr og greindust hundruð þúsunda tilfella á ári í Bandaríkjunum. Sú tala hríðlækkaði á 7. áratugnum eftir að bólusetningar urðu almennar.

Talan er sögð hafa hækkað aftur undanfarin ár annars vegar vegna fjölda ferðamanna frá löndum þar sem mislingar eru algengir og hins vegar vegna andstöðu ákveðinna hópa gegn bólusetningum.

Í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að eitt til þrjú börn af hverjum þúsund sem smitast deyji af völdum sjúkdómsins og árið 2011 þurftu nærri 40 prósent barna sem smituðust að gangast undir læknismeðferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×