Menning

Umhverfislist og málningadropar í Hafnarhúsinu

Listaverk eftir Robert Smithson.
Listaverk eftir Robert Smithson.
Tvær sýningar opna í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi í dag klukkan fjögur. Annars vegar sýning á verkum Roberts Smithsons, eins áhrifamesta myndlistamanns á síðari hluta 20. aldar og hins vegar sýning Ívars Valgarðssonar.

Robert Smithson (1938–1973) er þekktastur sem einn af upphafsmönnum umhverfislistar (Land Art Movement). Á þessari sýningu er lögð áhersla á verkið Brotinn hringur/Spíralhæð sem Smithson gerði í Emmen í Hollandi árið 1971.

Við sama tækifæri verður opnuð sýningin Til spillis eftir Ívar Valgarðsson (f. 1954). Sýningin samanstendur af þremur veggmyndum af málningardropum sem hafa lekið á gólfið í A-sal í Hafnarhúsinu, auk þriggja ljósmynda.

Ívar beinir stafrænum smásjármyndavélum, sem ætlaðar eru til vísindarannsókna, að dropunum og varpar myndum í rauntíma á veggina, eins konar stækkuðum stafrænum málverkum af dropunum. Hann vekur þannig athygli á málningu sem hefur farið til spillis og færir sér í nyt gáleysi málarans, sem málaði veggi sýningarsalarins, með því að færa dropana aftur upp á veggina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×