Innlent

iPhone svindlarinn með margar kærur á bakinu hér á landi

Andri Ólafsson skrifar
Íslenskur svikahrappur situr nú í varðhaldi í Danmörku grunaður um umfangsmikil fjársvik. Sami maður er með margar kærur á bakinu hér landi vegna svipaðra brota.

RÚV greindi frá því í dag að maðurinn hefði verið handtekinn í Kaupmannahöfn í lok október. Fréttastofa Stöðvar 2 fékk það staðfest síðar að maðurinn sé grunaður um að hafa fengið fólk til að kaupa fyrir sig Iphone síma sem hann sagðist svo ætla að endurselja á Íslandi á hærra verði og mynda þannig hagnað. Þannig mun maðurinn hafa fengið 6 til 8 hundruð síma frá einstaklingum sem maðurinn sveik svo um greiðslu.

Þetta eru háar upphæðir sem um ræðir, 4,8 milljónir danskra króna, um 110 milljónir íslenskra króna. RÚV segir frá því að maðurinn hafi verið handtekinn í miðborg Kaupmannahafnar og verði í gæsluvarðhaldi þangað til að dómur verði kveðinn upp í málinu.

Fréttastofa Stöðvar 2 hefur heimildir fyrir því að maðurinn sem um ræðir heiti Halldór Viðar Sanne. Halldór þessi er með nokkrar kærur á bakinu hér á landi frá fólki sem telur hann hafa svikið sig. Þessi mál hafa verið til rannsóknar hjá fjármunabrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar fengust þær upplýsingar að rannsókn á þeim málum væri á lokastigi en ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort ákært verði.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er Halldór Viðar Sanne með um fimm fjársvikamál á bakinu hér á landi, fyrir utan stóra iPhone svindlið í Kaupmannahöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×