Halldór var fluttur á sjúkrahús í Aspen í Colorado í gær eftir slæma lendingu í keppni á X-leikunum. Halldór reyndi stökk með þreföldum snúningi í síðustu tilraun sinni og virtist ætla að taka mikla áhættu.
„Hann lenti á gagnauganu blessaður. Þetta skeður," sagði móðir Halldórs, Kristín S. Eiríksdóttir. Hún viðurkennir að hún og faðir Halldórs séu orðin ýmsu vön enda hættuleg stökk daglegt brauð hjá syni þeirra.

Halldór missti meðvitund við lendinguna en komst fljótt til meðvitundar á ný. Hann var fluttur á brott á sjúkrabörum en lyfti fingri til marks um að í lagi væri með hann.
„Hann hringdi í mig í gær og hann er kominn út (af sjúkrahúsinu)," segir Kristín.
„Hann er í lagi en má ekkert gera í hálfan mánuð segja þeir. Á að taka því rólega. Hann slapp með skrekkinn eins og stundum áður. Hann fékk heilahristing en braut ekki neitt. Svo var hann meiddur í hálsi fyrir og þeir sáu gömlu meiðslin. Þeir sáu að það var ekki í lagi með hálsinn á honum. Þess vegna settu þeir þetta á hann," segir Kristín.
Þar vísar hún í hálskragann sem Halldór skartar á mynd sem hann dreifði til aðdáenda sinna á samskiptamiðlunum Facebook og Twitter í gærkvöldi.